Skipulagsstofnun vekur athygli sveitarstjórna á því að þann 29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra staðfestingu aðalskipulags Flóahrepps að hluta annars vegar og aðalskipulagsbreytingar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hins vegar. Ástæða þess að umhverfisráðherra synjaði um staðfestingu er sú að Landsvirkjun hafði tekið þátt í kostnaði við aðalskipulagsgerð, en í niðurstöðu ráðherra segir m.a.:

"Samkvæmt þeim ákvæðum (3. tl. og 4. tl. 1. mgr. 34. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997) er þannig ekki gert ráð fyrir öðru en að kostnaður vegna aðalskipulags sé greiddur úr sveitarsjóði eða Skipulagssjóði. Þessi lagaafmörkun leiðir og að mati ráðuneytisins til þess að ekki er heimild til handa sveitarstjórn að semja við aðra aðila eða stofnanir en Skipulagssjóð um greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags."

Í afgreiðslu sinni vísaði umhverfisráðherra jafnframt til þess að í úrskurði sínum frá 31. ágúst 2009 hefði samgönguráðherra fjallað um þetta sama álitaefni og komist að þeirri niðurstöðu að Flóahreppi hefði verið óheimilt að semja við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar vegna vinnu við gerð aðalskipulags.

Að mati Skipulagsstofnunar verður því að líta svo á að öðrum aðilum en sveitarsjóði, og eftir atvikum Skipulagssjóði, sé óheimilt að bera kostnað vegna gerðar aðalskipulags.

Þegar sveitarstjórn sendir Skipulagsstofnun aðalskipulagstillögur sbr. 19. og 21. gr. skipulags- og byggingarlaga til afgreiðslu er af þessu tilefni óskað eftir því að framvegis fylgi með erindi upplýsingar um hvort einhver annar aðili en sveitarsjóður og Skipulagssjóður hafi komið að greiðslu kostnaðar vegna gerðar tillögunnar.

Mynd: Kynning á skipulagstillögu (merkt sem A) Urriðafossvirkjunar á íbúafundi boðuðum af sveitarsjórn Flóahrepps í félagsheimili Þjórsárvers í Flóa þ. 25. júní 2007. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
17. mars 2010
Höfundur:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Skipulagsstofnun „Greiðsla kostnaðar vegna aðalskipulagsgerðar“, Náttúran.is: 17. mars 2010 URL: http://nature.is/d/2010/03/17/greiosla-kostnaoar-vegna-aoalskipulagsgeroargreios/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: