Aðalfundur Landverndar 2006
Árlegur aðalfundur Landverndar var haldinn í Garðaholti í Garðabæ þ. 29. apríl. Meðal fundarefnis var kynning árssýrslu (sjá ársskýrslu Landverndar 2005-2006), almenn aðalfundarstörf og mörg áhugaverð dagskráratriði þ.á.m. að ný ráðinn framkvæmdastjóri Landvernar, Bergur Sigurðsson, var boðinn velkominn til starfa en hann tekur við starfinu þann 1. maí. Tryggvi Felixson, fráfarandi framkvæmdastjóri til sjö ára var kvaddur og þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins og náttúruverndar á Íslandi.
Tryggvi hverfur nú til starfa hjá Norrænu Ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn en honum hefur verið falið að stjórna þeirri deild skrifstofunnar sem annast umhverfis- og auðlindamál. Björgólfur Thorsteinsson formaður Landverndar afhenti Tryggva forláta íslenska borðfánastöng til að hafa á skrifborði sínu í Kaupmannhöfn „til að minna á íslensku útrásina (innrásina)“ eins og Björgólfur orðaði það. Fjölmargar tillögur um ályktanir voru bornar fram á fundinum og flestar voru samþykktar án breytinga og aðrar með minniháttar breytingum. Ný ályktunartillaga allsherjarnefndar var síðan borin fram stuttu fyrir lok fundarins og eftir nokkrar orðatilfærslur og áherslubreytingar samþykkt einróma af fundarmönnum.Ályktunin er svohljóðandi: Aðalfundur Landverndar varar við frekari stóriðjuáformum með tilheyrandi umhverfisspjöllum vegna orkuöflunar, línulagna og mengunar. Aðalfundurinn beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að bíða með frekari ákvarðanir um framkvæmdir a.m.k. þangað til lokið verður við 2. áfanga rammáætlanar.
Á eftri myndinni er Björgólfur að skýra fyrir fundarmönnum fyrrnefnda ástæðu fyrir kveðjugjöfinni til Tryggva. Á neðri myndinn hlýða Sigríður Anna á ræðumann. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
29. apríl 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Aðalfundur Landverndar 2006“, Náttúran.is: 29. apríl 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/adalfund_landvern_06/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 16. maí 2007