Árið 2010 er gengið í garð. Miklar blikur eru á lofti í vestrænu samfélagi. Hagkerfið hefur nötrað og ýmislegt óhreint hefur skotið upp kollinum í hinum besta allra heima. Eða er það samfélag sem við höfum búið við hið besta sem völ er á? Hver er skilgreiningin á gæðum samfélagsins? Við höfum nú séð ókosti þeirra viðmiða og markmiða sem vestrænt hagkerfi hefur stuðst við um hríð. Líklega að mestu leiti frá iðnbyltingu og svo toppað sjálft sig með svokallaðri ný frjálshyggju. Viðmið þessarar stefnu hefur verið vöxtur, endalaus og óstöðvandi vöxtur. Þegar frumum mannslíkamans tekst að ná slíkum árangri er það kallað krabbamein og allt reynt að gera til að stöðva það áður en það drepur sjúklinginn.  En þegar slíkur vöxtur á sér stað í hagkerfinu eru allir glaðir. Eða hvað?. Öll okkar fræði byggjast á því að ekkert geti orðið til úr engu. Allt sé tilfærsla á efni eða orku. Þannig hlýtur vöxtur á einum stað að valda minnkun á öðrum stað. Og það er einmitt hin ósýnilega hlið hins mikla markaðar. Til að ná fram aukinni framleiðslu hafa iðnríkin gengið á forða jarðarinnar og helst í svokölluðum þróunarríkjum. Þar hafa þau getað vélað keypt stjórvöld til að láta af hendi auðlindir efna eða orku fyrir smánarlegar greiðslur. Þannig hafa þau getað safnað auði á fáar hendur og rænt aðra lífsviðurværi sínu. Nú segja einhverjir að þetta sé aðeins eðlilegur hluti viðskipta. Og það má vissulega vera að svo sé. En þá spyr ég á móti hvort viðskipti séu eðlileg ef þau valda tjóni, óhamingju, spillingu og dauða saklausra barna úr hungri og skorti á heilsugæslu? Ég vil meina að svo sé ekki. Og ég er ekki einn um þá skoðun. Hún kom fram í mörgum myndum á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Þar létu hin meintu þróunarlönd loks í sér heyra og tóku ekki þátt í sýndarmennsku iðnríkjanna.

Stóriðnaður og neysluhyggjan sem drífur hann áfram er krabbamein í mannlegu samfélagi. Við getum ekki haldið áfram með sama hætti og reynt að troða eyðsluhyggju vesturveldanna, hins svokallaða þróaða heimshluta, uppá þjóðir sem hafa verið blóðmjólkaðar af ný lenduherrum í einni eða annari mynd. Jörðin ber einfaldlega ekki þessa þróun. Hvorki eru til auðlindir til þess arna né þolir loftslagið álagið. Við verðum að snúa þessari þróun við. Nú og ekki seinna en nú verða allir að leggjast á eitt til að sporna við fótum og snúa þróuninni við.

Það er komið að kaflaskilum í menningu heimsins. Við höfum um tvennt að velja.

Halda áfram á sömu braut þótt hugsanlega verði eittthvað slegið af. Það mun leiða til enn meiri átaka og baráttu um auðlindir, orku, olíu, vatn og jarðnæði. Það mun leiða til ófyrirsjáanlegra afleiðinga í veðurfari þar sem sjávarborð mun hækka um allt að tugi metra og eyða gríðarlegu landflæmi sem er heimkynni milljóna manna auk þess að vera gjöfult land til matvælaframleiðslu.

Á hinn bóginn getum við tekið ákvörðun um að draga úr neyslu. Nota auðæfi okkar til að styðja þau lönd sem við höfum rænt og spillt til sjálbærs hagkerfis. Ég segi við því Íslendingar hafa tekið þátt í þessari þróun sem gerandi og eins látið fara illa með síg. Við hér á Íslandi getum tekið á okkur rögg og orðið fyrirmynd í sjálfbærr þróun. Hér höfum við margt sem betur má nýta. Ég er ekki að tala um óvirkjaða hveri og vantsföll. Heldur getum við notað þá orku sem þegar er vikrjuð á betri hátt. Við getum notað orku sem nú fer til spillis á urðunarstöðum og í fjóshaugum um land allt. Við getum unnið meiri verðmæti úr sjávarafla okkar og aðlagast þeim breytingum sem eiga sér stað á lífríki hafsing í lögsögu okkar.

Á síðasta ári komu hingað til lands tveir mætir hagfræðingar sem tala einum rómi fyrir nýjum viðmiðum í rekstri þjóða og heimsins. Hætta að einblína á hagvöxt og þjóðarframleiðslu sem einu mælana. Horfa líka á félagslega þætti. Taka sjálfbærni með í reikninginn. Líðan þegnanna. Menntun og upplýsta umræðu. Horfa á börnin okkar og hvort annað, hvað það er sem gefur lífinu gildi. Þar liggja verðmæti sem ekki hafa verið mæld og metin af greiningardeildum og lánshæfismatsstofnunum.

Vilji er allt sem þarf. Við verðum að taka ákvörðun um stefnu sem er til heilla fyrir landið og þjóðina. Þannig getum við sýnt heiminum hvers við erum megnug. Við verðum að taka höndum saman. Forgangsraða uppá nýtt og taka höndum saman í uppbyggingu samfélags sem er sjálfu sér nægt um mat, orku og efni en gegnur ekki á innistæðu komandi kynslóða til að lifa góðu og fögru mannlífi.

Birt:
1. janúar 2010
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Áramótaspjall“, Náttúran.is: 1. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/01/aramotaspjall/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. janúar 2010

Skilaboð: