Aðgöngumiði á erlenda markaði
Jónas R. Viðarsson útskrifaðist í vor úr meistaranámi í umhverfisog auðlindafræði við Háskóla Íslands. Jónas er í hópi fyrstu nemanna sem útskrifast úr náminu, en hann fjallaði í lokaverkefni sínu um umhverfismerki í sjávarútvegi og naut stuðnings Matís á meðan á undirbúningi þess stóð, en í dag vinnur Jónas þar sem fastur starfsmaður.
„Ég hafði gífurlegan áhuga á að fjalla um sjávarútveg og viðskipti, eftir að hafa verið sjálfur í slorinu í tíu ár á sjó,“ segir Jónas, en hann hafði áður lokið BS-prófi í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. „Þessi athugun á umhverfismerkingum í sjávarútvegi kallar á viðskiptasjónarhorn en ég er ekki síður að horfa á umhverfisvernd og ímynd greinarinnar.“
Hart tekið á trollveiðum
Jónas útskýrir að þau merki sem mest eru notuð í sjávarútvegi, líkt og í öðrum framleiðslugeirum, byggja á staðli sem einn aðili skilgreinir, en annar aðili vottar að viðkomandi uppfylli kröfur staðalsins. „Þetta er eina leiðin sem býður upp á nægilegan trúverðugleika,“ segir Jónas. Að sögn Jónasar er MSC (Marine Stewartship Council) þekktasta umhverfismerkið í sjávarútvegi. „Merki MSC vottar að fiskurinn komi frá stofnum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt. Þar er leitast við að horfa heildrænt á fiskveiðar, bæði ástand stofnsins og aðferðirnar sem notaðar eru við veiðar. Tekið er hart á trollveiðum og botn-togveiðum og það þarf að vanda mjög til verka til að fá vottun á slíkar veiðar,“ segir Jónas.
Bretar lengst komnir
„Umhverfismerkingar eru að koma upp núna í sjávarútvegi eftir lengri sögu í landbúnaði, þar sem lífræn vottun hefur verið lengi við lþði. Þetta hefur gerst hratt á alþjóðavísu á síðustu þremur árum,“ segir Jónas. „Bretar eru komnir lengst og það eru ýmsar blikur á lofti í Bandaríkjunum. WalMart- verslunarkeðjan hefur til dæmis lýst því yfir að þar verði aðeins seldar sjávarafurðir sem vottaðar eru sjálfbærar,“ segir Jónas.
Jónas segir að LÍÚ og íslenskir útgerðarmenn hafi tekið ákvörðun um að MSC-vottun henti ekki hér á landi. „Ætlunin er að koma með sér-íslenskt merki í haust. Þetta merki á að votta að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sjái til þess að íslenskur fiskur komi úr sjálfbært nýttum stofnum.“
Önnur staða yrði hér á landi
„Þetta er vandasamt verkefni þar sem að við þróun á slíku merki er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar og náttúruverndarsamtök vinni saman. Náttúruverndarsamtök eru á bakvið mikið af kröfum um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og mikilvægt er að þau séu með í ráðum. Þá er í mörgum umhverfismerkjum lagt upp með að herða staðlana á þriggja til fimm ára fresti til að tryggja að einungis 30% markaðarins eigi möguleika á viðkomandi vottun. Það verður nokkuð önnur staða uppi hér ef gerður verður staðall sem allar hérlendar fiskveiðar gætu fallið undir,“ segir Jónas.
Jónas útskýrir að erlendur vottunaraðili á borð við Moody Marine eða Bureau Veritas verði væntanlega fenginn til að votta merkið, en ítrekar að gildi vottunarinnar fari eftir þeim kröfum sem staðallinn sjálfur gerir. Hann segir að eftir talsverðar umræður hafi nú allar Norðurlandaþjóðirnar, þar á meðal Grænlendingar og Færeyingar, tekið þá afstöðu að byggja ekki upp eigin merki heldur velja MSC.
Þorskveiðar ekki taldar sjálfbærar
Jónas segir að umhverfismerki á borð við MSC séu þó langt frá gallalaus. „Bent hefur verið á að vottun MSC hafi í sumum tilvikum ekki verið sambærileg frá einu svæði til annars. Staða umhverfisverndarsamtaka er einnig mjög sterk innan MSC og því ákveðin hætta á að of mikið tillit sé tekið til öfgafullra sjónarmiða í umhverfismálum, líkt og gerst hefur varðandi hvalveiðar.“
Jónas bendir á að ákveðnir geirar íslensks sjávarútvegs eigi auðveldara en aðrir með að fá umhverfisvottun, til að mynda smábátaveiðar. „Landssamband smábátaeigenda er að sækja um vottun á veiðar þriggja smábáta hjá sænska umhverfisvottunaraðilanum Krav,“ segir Jónas, en merki þeirra er vel þekkt í hinum lífræna geira í Skandinavíu.
„Það yrði aftur á móti erfitt fyrir flest stærri útgerðarfélög á Íslandi að sækja um slíka vottun, í ljósi þess að þorskveiðar í Norður-Atlantshafi eru almennt ekki taldar sjálfbærar og trollveiðar eiga auk þess við ákveðinn ímyndarvanda að stríða.“
Aðgöngumiði á markaði
Í verkefni sínu lagði Jónas mat á hvort umhverfismerki skiluðu árangri, bæði fyrir fyrirtækin sem taka þau upp og fyrir náttúruna. „Niðurstaðan er ekki svart á hvítu um þetta, en vottun er þó klárlega að verða aðgöngumiði inn á vissa markaði. Sumir af stærstu smásölunum vilja umhverfismerktan fisk. Ef við horfum 2-3 ár fram í tímann þá verður líklega erfiðara en það er í dag að selja fiskinn okkar til Bretlands án umhverfismerkingar,“ segir Jónas, en Bretland er langstærsta fiskútflutningsland Íslendinga.
„Á Bretlandi eru sex smásöluaðilar sem samanlagt hafa yfirburðamarkaðshlutdeild í fisksölu og eru þeir allir búnir að taka mjög ákveðna afstöðu í umhverfismálefnum. Greenpeace gáfu nýlega smásölukeðjum í Bandaríkjunum einkunn og sá sem skoraði hæst var Whole Foods Market, þrátt fyrir að fá aðeins fjóra af tíu í einkunn!“ segir Jónas, en Bandaríkin eru þriðji stærsti útflutningsmarkaðurinn fyrir íslenskan fisk. „Krafan um sjálfbærni í sjávarútvegi á bara eftir að aukast.“
Tökum frumkvæði á styrkleikasviðum
Íslendingar hafa þó litlu að kvíða að mati Jónasar. „Við þurfum að taka frumkvæði í þessum málum í stað þess að bregðast við eftir á. Við erum að gera góða hluti á ansi mörgum sviðum og eigum að taka forystuna þar. Það þarf að styrkja enn frekar rannsóknir á sviði sjálfbærrar þróunar og tefla fram styrkleikasviðum okkar, til að mynda línuveiddri þsu, síldarstofnum sem veiddir eru á umhverfisvænan hátt í nót og þeirri staðreynd að íslenskur fiskiðnaður ný tir víða hráefni mjög vel, til dæmis með hausaþurrkun.“
„Þegar sjálfbær þróun í sjávarútvegi er rædd í dag þarf ekki einungis að taka tillit til veiðanna heldur einnig meðferð hráefnisins eftir að það kemur upp úr sjó og hversu vel það ný tist. Þar liggja mikil tækifæri. Með því að velja úr styrkleikasviðin getum við einbeitt okkur að þeim og það er leiðin fram á við.“
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Aðgöngumiði á erlenda markaði“, Náttúran.is: 19. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/19/aogongumio-erlenda-markaoi/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. janúar 2009