Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að staðfesta Árósasamninginn en bæði þessi samtök hafa um árabil barist fyrir því að Íslandi staðfesti samninginn. Í stuttu máli felur Árósasamningurinn í sér umtalsverðar réttarbætur fyrir þau samtök sem vinna að umhverfis- og náttúruvernd, styrkir stöðu þeirra og eflir lýðræðislega umræðu um umhverfismál í samræmi við 10. gr. Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.
Sjá nánar í frétt hér að neðan.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands segir:

Allt frá því Guðmundur Bjarnason, þ.v. umhverfisráðherra, undirritaði samninginn í Árósum í júní 1998 hafa Náttúruverndarsamtökin barist fyrir því að samningurinn verði staðfestur af Alþingi og þar með yrðu ákvæði hans bundin í lög á Íslandi. Ríkisstjórn Íslands hefur nú loks tekið ákvörðun um að það verði gert - en í fyrri ríkisstjórn lagðist dómsmálaráðherra gegn staðfestingu Árósasamningsins.

Í samstarfsyfirlýsingu frjálsra félagasamtaka og þ.v. umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, frá árinu 2001 voru gefin fyrirheit um að Árósasamningurinn yrði fullgiltur á Alþingi. Við það var ekki staðið.

Náttúruverndarsamtök Íslands vona að Alþingi náí að staðfesta þennan mikilvæga samning fyrir þinglok. Ísland er nú eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki hefur fullgilt þennan samning.

Í tilkynningu frá Landvernd segir:

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra um að Árósasamningurinn verði fullgiltur hér á landi. Samningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
 
Þessi ákvörðun markar tímamót í náttúruvernd á Íslandi. Fullgilding samningsins hefur verið baráttumál þeirra sem hafa viljað styrkja stöðu umhverfisverndar á Íslandi. Til þessa hefur fullgilding samningsins ekki hlotið náð ríkisstjórna þrátt fyrir að stjórnvöld hafi undirritað samninginn 1998. Úrskurðarnefndir hins opinbera, sem og ráðherrar, hafa í gegnum tíðina vísað frá fjölmörgum kærum sökum meints skorts á málsaðild. Við fullgildingu samningsins mun slíkt heyra sögunni til.
 
Í batnandi landi er best að lifa.

Birt:
12. febrúar 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ákvörðun um fullgildingu Árósasamningsins fagnað“, Náttúran.is: 12. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/12/akvoroun-rikisstjornarinnar-um-ao-arosarsamninguri/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: