OR setur 200 milljónir í umhverfisbætur á Hellisheiði
Talsmenn Orkuveitunnar (OR) leggja áherslu á að ekki sé verið að bæta fyrir syndir hennar, heldur fyrri tíma skemmdir. Þó megi tala um þetta sem mótvægisaðgerð við aðrar framkvæmdir fyrirtækisins á svæðinu. "Við komum að málum á heiðinni eitthvað í kringum árið 2000 og byrjuðum með tilraunaborholur. Þá hafði verið malartekja þarna í áratugi," segir Jakob Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá OR.
Einnig á að grafa upp vegslóða sem hafa verið lagðir í gegnum tíðina á heiðinni og fækka þeim. Í sár kringum vegina verður sáð ófrjóu "golfvallagrasi", sem grípur í sig frjó úr plöntum og víkur svo fyrir þeim.
Í stuttu máli sagt á að koma yfirborðinu að mestu leyti til fyrra horfs. En þetta er meðal annars mótvægisaðgerð við stór rör OR, sem verða ekki hulin. Einnig eru stöðvarhús fyrirtækisins áberandi á svæðinu. "Hellisheiðarvirkjun var byggð svolítið flott og áberandi og er sýnileg í náttúrunni. Næsta kynslóð virkjana verður allt öðruvísi. Hverahlíðarvirkjun verður til dæmis með huldum lögnum að hluta til og byggð þannig að hún falli að landslagi," segir Jakob.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR og bætir við að verkefnið sé spennandi. Markmiðið sé að skila landinu í betra ásigkomulagi en það var áður en OR kom að því. "Og við ætlum að hafa sérstaka ráðstefnu í haust um hvernig farið er að því að endurheimta land eftir framkvæmdir," segir Hjörleifur.
Myndin er af vegbótum á vegarkanti vegar sem lagður var að tilruanaborholu í Hverahlíð á Hellisheiði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Klemens „OR setur 200 milljónir í umhverfisbætur á Hellisheiði“, Náttúran.is: 18. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/18/or-setur-200-milljonir-i-umhverfisbaetur-hellishei/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.