Lífrænar varnir eða lífræn ræktun
Í nýjum auglýsingum auglýsir Sölufélag garðyrkjumanna að íslenskir tómatar séu komnir í nýjar og endurvinnanlegar umbúðir sem eru góðar fréttir. Það er löngu tímabært að úthýsa frauðinu sem er algerlega óendurvinnanlegt og brotnar alls ekki niður í náttúrunni. Enn sem komið er eru það þó aðeins hinir ýmsu tómatar frá Sölumiðstöð garðyrkjumanna sem eru komnir í endurvinnanlegar umbúðir en vonandi er ekki langt í að aðrar grænmetistegundir fylgi á eftir.
Í nýjum blaðaauglýsingum Sölufélags garðyrkjumanna þar sem nýju umbúðirnar eru auglýstar er um leið birt heimatilbúið merki sem gæti villt um fyrir neytendum. Ætla mætti að hugmyndin sé að láta líta svo út sem varan sé „lífræn“ þó að slíkt sé ekki fullyrt hér.
Skilgreining á „lífrænni vöru“ miðast við annað og meira en að lífrænar varnir séu nýttar við framleiðsluna þó að það að nota lífrænar varnir til að halda meindýrum og skaðvöldum í skefjum með öðrum náttúrulegum lífverum séu hluti af lifrænni ræktun og að sjálfsögðu mun jákvæðara á allan hátt en að nota eitur á skaðvaldana. Það getur þó orkað tvímælis að útbúa eigið merki þar sem kemur fram að „lífrænar varnir“ séu notaðar við framleiðsluna. Það er því mikilvægt að neytendur séu upplýstir um muninn á þessu tvennu, þ.e.; lífrænni ræktun annars vegar og hins vegar að lífrænar varnir séu notaðar við ræktun.
Sjá nánar um lífrænar varnir í grein Þorsteins Úlfars Björnssonar hér neðar á síðunni.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífrænar varnir eða lífræn ræktun“, Náttúran.is: 8. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/08/lifraenar-varnir-eda-lifraen-raektun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. maí 2010