Þátttaka í könnunarleiðangri umhverfissamtaka á Íslandi um Teigsskóg í Þorskafirði fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda en um 90 manns mættu í gönguna 5. júlí sl. Ferðin var farin til að vekja athygli landsmanna á þeim náttúrugæðum sem þarna eru í húfi en til stendur að leggja veg eftir endilöngum skóginum. Teigsskógur er stærsti skógur á Vestfjörðum. Hann er einn fárra landnámsskóga á Íslandi og er hans fyrst getið í Gísla sögu Súrssonar. Mikill gróður og sjaldgæfar jurtir eru í skógarbotninum og fuglalíf með eindæmum fjölskrúðugt. Á þessum slóðum eru einhver gjöfulustu arnarhreiður landsins og mikill fjöldi farfugla á hér viðkomu vor og haust. Fjölbreytileikinn í landslaginu kom göngufólki skemmtilega á óvart. Drjúgan hluta leiðarinnar var gengið eftir ströndinni sem skreytt er skerjum og sjávartjörnum sem prýddar eru skemmtilegum bergmyndunum.

Gunnlaugur Pétursson verkfræðingur og Einar Þorleifsson frá Fuglavernd voru leiðsögumenn í ferðinni. Lýsti Gunnlaugur áætlunum Vegagerðarinnar og ítrekaði að enginn deildi um að þörf væri á vegabótum, fjallvegir brattir og hættulegir yfirferðar. Fleiri kostir eru þó í stöðunni en að leggja veg eftir endilöngu nesinu og fyrir mynni tveggja fjarða, Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Að sögn Gunnlaugs myndi gangnagerð stytta leiðina um 8 km til viðbótar við fyrirhugaða styttingu, auk þess að tryggja umferðaröryggi. Endanleg kostnaðaráætlun fyrir veginn liggur enn ekki fyrir og því óraunhæft að gera samanburð á valkostum. Gangnagerð er oftast dýrari en væntanlega yrði efnistekja í skóginum bönnuð og því þyrfti að flytja allt efni í veginn annars staðar frá. Landssvæðið sem færi undir veginn hefði heldur ekki verið metið til fjár í umhverfismatinu en það er á stærð við 80 fótboltavelli. Gunnlaugur sagði ljóst að meta þyrfti þau verðmæti sem fælust í náttúrunni, bæði fornskóginn og fuglalífið sem þrífst í skjóli einangrunar svæðisins. 

Einar tók undir og sagðist telja að leggja hefði þurft mun meiri vinnu í umhverfismat. Ítarlegri rannsóknir hefði þurft að gera á fuglalífi og gróðri á svæðinu. Í umhverfismati er þess getið að krossjurt og ferlaufung sé væntanlega að finna í skóginum og vísuðu leiðsögumenn göngugörpum á báðar plönturnar.

Í upphafi skipulagsferlis höfnuðu Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun alfarið lagningu vegar í gegnum skóginn. Vegagerðin var á sama máli en sveitarstjórnin meðmælt skipulaginu sem varð m.a. til þess að þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmars, hafnaði áliti umsagnaraðila og gaf leyfi til vegagerðar í gegnum skóginn í aðdraganda alþingiskosninga 2007. Fuglavernd og Náttúruverndarsamtök Íslands stefndu úrskurði ráðherra fyrir dómstóla og er búist við að dómur falli í málinu í haust. Efni kærunnar er m.a. að umhverfisáhrif vegagerðarinnar hafi ekki verið metin á fullnægjandi hátt og ógilda beri því úrskurð ráðherra. 

Landslag á Vestfjörðum einkennist af litlu láglendi og á það við um hlíðina þar sem leggja á veginn. Ef af vegagerð verður er ljóst að stór hluti skógarins verður jarðþtum að bráð. Óvenju fjölskrúðugt fuglalíf mun einnig heyra sögunni til. Á ferð um Teigsskóg kom ferðalöngum almennt saman um að í húfi væru mikil náttúruverðmæti. Sérfræðingur í hópnum benti á að óröskuð svæði væru í raunverulegri útrýmingarhættu á Íslandi. Vill íslenska þjóðin taka ábyrgð á slíkri eyðileggingu? Eða er kannski tími til kominn að innleiða löggjöf sem kemur í veg fyrir geðþóttaákvarðanir valdhafa í umhverfismálum? 

Birt:
10. júlí 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Á ferð um Teigsskóg“, Náttúran.is: 10. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/10/fero-um-teigsskog/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. júlí 2008

Skilaboð: