Bréfasendingar eru mun sjaldgæfari en áður fyrr. Ýmis símþjónusta, netpóstur og upplýsingar á vefsíðum hafa leyst pappírspóstinn að mestu af hólmi. Það ætti að þýða að álag á póstkassana okkar hafi minnkað en því er öðru nær. Enn berst ýmis „leiðinlegur póstur“ heim, bankayfirlit og reikningar sem mörg hver er hægt að afpanta í prentuðu formi og spara með því að fá þau frekar sent í Pdf-formi eða fá beinan netaðgang að upplýsingunum. Það er þess virði að skoða vel hvað má afpanta og hvað er nauðsynlegt að hafa í pappírsformi t.d. fyrir bókhaldið.

Mikið skóglendi þarf til að framleiða pappír í allan þann fjölpóst og dagblöð sem eru aðeins fersk og áhugaverð í einn dag eða svo. Bæði framleiðslan og flutningar skilja eftir sig slóð af neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem losun á kolefni. Á löngum tíma eyðist pappírinn sjálfur og brotnar niður. Ef pappírinn er endurunninn nýtist hann í grófari pappírsframleiðslu s.s. klósettpappír og jafnvel til metanframleiðslu.

Fjölpóstur eru dagblöð og auglýsingaefni sem kemur óumbeðið í póstkassann okkar. Hvert heimili fær að meðaltali um 176 kg. inn um lúguna á ári. Þeir sem ekki telja sig hafa gagn af fjölpósti geta nú afþakkað hann á pósthúsum og fengið miða til að líma á póstkassann hjá sér um að ekki sé óskað eftir fjölpósti. Einnig er hægt að fylla út eyðublað á vef Íslandspóst þar sem fjölpóstur er afþakkaður og miðinn þá sendur heim innan tveggja vikna. Íslandspóstur dreifir þó aðeins um 12% af fjölpóstinum sem borinn er út. Þú getur einnig hringt í Þjóðskrá (Sími: 569 2900) eða sent tölvupóst til thjodskra@thjodskra.is (með nafni og kennitölu) og látið setja bannmerki við nafnið þitt. Bannmerki við nafn í Þjóðskrá þýðir að ekki er heimilt að senda þér fjölpóst merktan þér.

Fyrirtækin nota tölur frá Þjóðskrá við að áætla hve hátt upplag verður á tilteknu prentefni og örfá fyrirtæki hafa aðgang að Þjóðskrá til að bjóða markhópagreiningu til að senda póst á ákveðinn markhóp í auglýsingaskyni. Það kemur því tvímælalaust í veg fyrir óþarfa álag á umhverfið að hafa fyrir því að senda tölvupóst til Þjóðskrár og láta setja bannmerki við nafnið sitt ef enginn áhugi er fyrir því að fá óumbeðnar sendingar af þessu tagi.

Hvað varðar annan fjölpóst sem fer inn á heimilin á landinu verður það að segjast eins og er að í dag er ekki auðvelt að komast hjá því að fá óumbeðinn fjölpóst sem sumir kalla ruslpóst inn um lúguna hjá sér. 

Með dagblöð gildir þó að þú verður að hringja til viðkomandi blaðs og biðja um að blaðið verði ekki sett inn um lúguna þína. Fréttblaðið tekur t.a.m. við skilaboðum af þessu tagi, skráir og kemur skilaboðunum á framfæri við blaðbera. Flest dagblöð er nú hvort eð er hægt að lesa í Pdf-útgáfum á netinu.

Birt:
17. apríl 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Póstur“, Náttúran.is: 17. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/pstur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 12. júní 2014

Skilaboð: