Orkuveita Reykjavíkur hvetur til rannsókna í umhverfis- og orkumálum
Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitu Reykjavíkur hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til rannsóknarverkefna háskólafólks í þriðja sinn. Nú þegar hefur sjóðurinn stutt við bakið á um 80 verkefnum á sviði umhverfisvísinda og orkumála. Í ár er meðal óskað sérstaklega eftir rannsóknum á rafvæðingu í samgöngumálum landsmanna. Umsóknarfrestur er til 2. mars.
Sjóðurinn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og fagleg stjórn í höndum fyrirtækisins og allra háskóla á Íslandi því í vetur bættist Háskólinn á Akureyri í hóp aðildarskóla sjóðsins. Er mikill fengur að því, þar sem við skólann hafa verið stundaðar öflugar og metnaðarfullar rannsóknir á starfssviði sjóðsins. Aðrir aðildarskólar eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn, Háskólinn á Bifröst og Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Fyrst var úthlutað úr Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur árið 2007 og nutu þá 40 rannsóknarverkefni styrks. Í fyrra styrkti sjóðurinn 39 verkefni. Stærsta einstaka verkefnið sem sjóðurinn á aðild að er alþjóðlega kolefnisbindingarverkefnið CarbFix, sem nú stendur yfir við Hellisheiðarvirkjun.
Styrkjum er skipt í tvo flokka; opinn flokk, þar sem hugmyndaflug vísindafólksins ræður viðfangsefninu, og lokaðan flokk, þar sem sjóðsstjórnin skilgreinir viðfangsefni. Í ár óskar sjóðurinn eftir rannsóknum á átta viðfangsefnum. Eitt þeirra er rafvæðing einka- og almenningssamgangna, sem nálgast má frá sjónarhorni fjölmargra fræðasviða. Orkuveita Reykjavíkur á stærstan þátt í því að notkun jarðefnaeldsneytis við húshitun hefur verið hætt hér á landi. Nú eru samgöngur frekastar á innflutt bensín og olíu og blasir því við að beina sjónum að því að leita leiða til að nýta endurnýjanlega orkugjafa landsins
Sjóðurinn hefur sérstakan vef á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur, or.is/uoor, og er á honum allar nánari upplýsingar að finna auk umsóknarsíðna. Einungis er tekið við rafrænum umsóknum um styrki úr sjóðnum.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Orkuveita Reykjavíkur hvetur til rannsókna í umhverfis- og orkumálum“, Náttúran.is: 26. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/26/orkuveita-reykjavikur-hvetur-til-rannsokna-i-umhve/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.