Laugardaginn 13. desember kl. 14.00 heldur Paul Hawken opinn fyrirlestur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu 15, í Bókasal á annarri hæð. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Björk Guðmundsdóttir frumflutti lag sitt Náttúra á vinnufundi um íslenskt samfélag, sem hún skipulagði í október. Lagið var síðan selt á vef Nattura.info. Ágóðinn af sölunni fer í að flytja til landsins einn atkvæðamesta fræða- og athafnamann á sviði sjálfbærrar þróunar, tengslamyndunar og sprotavaxtar, hinn bandaríska Paul Hawken. Hann kemur, ásamt öðrum heimsþekktum umhverfisverndarsinna, John Picard, sem er ráðgjafi um grænkun athafnalífsins og tók m.a. þátt í að gera Hvíta húsið grænt undir stjórn Clintons.

Þann 11. desember koma Hawken og Picard til landsins og hitta ráðamenn, forsvarsmenn menntastofnana og samtaka nýsköpunar-, fjárhags- og atvinnulífsins, forsprakka í sprotafyrirtækjum og samtökum um sjálfbærni og samfélagslega, efnahaglega og umhverfislega ábyrgð. Þeir koma til að skoða stöðu mála á Íslandi, taka þátt í samræðu um atvinnu- og fyrirtækjatækifæri og gefa góð ráð um samfélagslega þróun í átt að sjálfbærni.

Paul Hawken er stofnandi fyrirtækja á sviði hugbúnaðar og matvælaframleiðslu, auk þess að stofna samfélagslega ábyrgan fjárfestingasjóð. Hann er eftirsóttur ráðgjafi út um allan heim og hefur hjálpað stöndugum fyrirtækjum og opinberum stofnunum við að umbreyta afstöðu sinni og ímynd. Hawken er forsprakki Stofnunar um náttúruauðlindir naturalcapital.org sem er teymi fræðimanna, vísindamanna í rannsóknum, kennara, nemenda, aktívísta, rithöfunda, félagslegra ábyrgra fjárfesta, listamanna og sjálfboðaliða "sem vilja leggja jörðunni lið á erfiðum tímum og hlúa að sárum menningarinnar." Nýlegt félagslegt verkefni Hawken er vefsíðan wiserearth.com sem safnar upplýsingum um hugsjóna-hreyfingar víðs vegar í heiminum.

Paul Hawken hefur gefið út tugi bóka um sjálfbæra þróun og um hina heildrænu sýn á heiminn sem við þörfnumst núna, flestar þessara bóka eru metsölubækur um allan heim og fjalla m.a. um "grænt" fjármagn, tengsl fjármagns og náttúruverndar og mikilvægi heildrænnar sýnar á samfélagið og víðtækrar grasrótar tengslamyndunar. Meðal rita Hawken sem selst hafa í milljónatali eru Vistfræði viðskipta, Ræktun viðskiptatengsla, Næsta hagfræðikerfi og síðasta bók hans Blessed unrest, sem fjallar um tilkomu stærstu hreyfingar í heimi og um það af hverju enginn sá hana verða til, sjá blessedunrest.com.
Paul Hawken er meðal eftisóttustu fyrirlesara í heimi. Suma af lestrum hans má finna á netinu, t.a.m.: http://www.youtube.com/watch?v=N1fiubmOqH4
http://www.youtube.com/watch?v=aiJNeln-1zs
http://www.youtube.com/watch?v=UGDXnoamGuI

John Picard sem er heimsþekktur umhverfisverndarsinni, arkítekt og entrepreneur. Hann tók þátt í að umbreyta umverfisstefnu Hvíta hússins  og gera hana "græna" í tíð Bill Clintons. Síðan þá hefur Picard veitt mörgum fyrirtækjum og byggingarverkefnum ráð um stefnubreytingu og sjálfbæra þróun.

Sjá viðtal við Picard: http://www.youtube.com/watch?v=WHTq7KDbHqM
Sjá heimasíðu Paul Hawken.

Allar nánari upplýsingar veita Einar Örn Benediktsson í síma: 770 0303 og Oddný Eir Ævarsdóttir á netfangi: oddnyeir@gmail.com En frekari upplýsingar um Hawken og Picard á Íslandi er að finna á nattura.info.

Birt:
10. desember 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Paul Hawken til Íslands í boði Bjarkar“, Náttúran.is: 10. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/10/paul-hawken-til-islands-i-booi-bjarkar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: