Sýnið vilja í verki og skráið ykkur í átakið – og skrifið undir áskorunina „Breytum loftslaginu“ á hopenhagen.org.

Íbúar allra landa eru hvattir til að ganga til liðs við Hopenhagen – alþjóðlega hreyfingu sem ætlað er að knýja fram breytingar í umhverfismálum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15) í Kaupmannahöfn í desember.
Átakið hefst formlega nú í alþjóðlegri viku loftslagsmála í september en þá eru innan við 80 dagar þar til loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn (COP15) hefst.

Hopenhagen gefur fólki færi á að taka virkan þátt í umræðum um loftslagsmál og láta leiðtoga heimsins og þátttakendur á ráðstefnunni heyra frá sér. Einn mikilvægasti tilgangur hreyfingarinnar er að safna undirskriftum undir áskorun sem kallast „Breytum loftslaginu“ (e. Climate Change), til stuðnings ákalli Sameinuðu þjóðanna eftir loftslagssáttmála sem er „metnaðarfullur, sanngjarn og mun bera árangur við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“

Heimasíðan hopenhagen.org er þungamiðja átaksins. Hún skapar bæði almenningi, ríkisstjórnum, sjálfstæðum félagasamtökum og fyrirtækjum tækifæri til að safna stuðningsaðilum fyrir jákvæðri niðurstöðu á loftslagsráðstefnunni COP15. Hopenhagen leggur áherslu á jákvæð skilaboð og vonina, þegar kemur að niðurstöðu ráðstefnunnar, og hvetur íbúa heimsins till að „leiða leiðtogana“ í átt að samkomulagi á ráðstefnunni.

Hopenhagen ný tur stuðnings frá alþjóðlegum fyrirtækjum, ríkisstjórnum og almenningi um allan heim.

„Við skoðuðum fjölda samtaka sem berjast fyrir loftslagsmálum áður en við ákváðum að taka Hopenhagen formlega undir okkar verndarvæng,“ segir aðalborgarstjóri Kaupmannahafnar, Ritt Bjerregård. „Við hrifumst af skilaboðum Hopenhagen um vonina, og því tækifæri sem samtökin veita fólki til að koma óskum sínum um sanngjarnan og áhrifaríkan loftslagssáttmála á framfæri. Kaupmannahöfn mun nota hina öflugu Hopenhagen-hreyfingu til að umbreyta Ráðhústorginu, þegar borgin verður vettvangur COP15 ráðstefnunnar og ný s, alþjóðlegs loftlagssáttmála“.

Smærri samfélög eða byggðir hafa einstakt tækifæri til að virkja íbúa sína með beinum hætti með Hopenhagen átakinu. Hopenhagen hefur gengið til liðs við SustainLane.com, og nýtt tengingu vefsíðunnar við 50 stærstu borgir Bandaríkjanna til að hvetja til aðgerða og koma á breytingum á hverjum stað fyrir sig.

Fyrirtæki á borð við The Coca-Cola Company, SAP og Siemens hafa heitið því að nýta alþjóðleg tengslanet sín og úrræði til að koma skilaboðum Hopenhagen til almennings um allan heim.

Þá munu fjölmiðlar víða um veröld gefa milljónir dala í formi sjónvarps-, prent-, útvarps-, umhverfis- og netauglýsinga til Hopenhagen hreyfingarinnar en auglýsingunum er ætlað að auka meðvitund um ástand loftslagsmála fram að ráðstefnunni í desember. Þar á meðal eru: Business India, Citadel Media, The Economist, EuroNews, The Financial Times, GOOD Magazine, Google, Harvard Business Review, ICP, The International Herald Tribune, The Internationalist Magazine, svæði JCDecaux á flugvöllunum JFK og LAX, National Geographic Magazine, Newsweek, Reader’s Digest, Scientific American, Text Appeal,Time Warner Cable, Thomson Reuters byggingin við Times Square og The Wall Street Journal.

„Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun sem þessi kynslóð og hinar næstu þurfa að kljást við. Leiðtogar heimsins koma saman á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember og allir íbúar heims eiga mikið undir niðurstöðu fundarins. Það er kominn tími til að klára málið. Við þörfnumst alþjóðlegrar hreyfingar sem hvetur til alvöru breytinga," sagði aðalritari SÞ, Ban Ki-moon. Hopenhagen snýst um meira en vonina. „Hopenhagen snýst um alheimsaðgerðir til að ná fram alþjóðlegum samningi um loftslagsmál og betri framtíð fyrir mannkynið,“ bætti Ban við.

„Vonarskilaboðum okkar hefur verið tekið vel af íbúum allra landa, þetta er einfalt ákall eftir aðgerðum sem vekur innblástur,“ sagði Michael Lee, framkvæmdastjóri Alþjóðlega auglýsingasambandsins (IAA), frjálsra félagasamtaka sem eru í fylkingarbrjósti hreyfingarinnar. „Hopenhagen er leið til að hrekja þá fullyrðngu að ekki sé hægt að finna lausn á loftslagsvandanum og sanna að þegar heimurinn sameinast á bak við einn málstað er hægt að koma á breytingum.“

Sameinuðu þjóðirnar vita hversu gríðarlegu miklu máli samskipti munu skipta í aðdraganda ráðstefnunnar og hafa því leitað stuðnings aljóðlega fjölmiðla- og auglýsingaiðnaðarins með milligöngu IAA, til að þróa heildstætt samskiptakerfi svo hvetja megi almenning til vitundar og aðgerða. Hopenhagen mun leggja „Seal the Deal!“ herferð SÞ lið.

Birt:
28. september 2009
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Breytum loftslaginu - undirskriftasöfnun Hopenhagen“, Náttúran.is: 28. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/28/hopenhagenorg/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: