Yfir 30 manns mættu á stofnfund Beint frá býli - Félags heimavinnsluaðila sem haldinn var á Möðrudal á Fjöllum á hlaupársdag. Fundarmenn ræddu um tilgang og markmið þessa nýstofnaða félags og bundu miklar vonir við verkefni næstu ára.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:
Stofnfundur Beint frá býli – Félags heimavinnsluaðila, haldinn að Fjallakaffi í Möðrudal á Fjöllum þann 29. febrúar 2008, lýsir ánægju með það starf sem unnið hefur verið. Fundurinn telur að miklir möguleikar geti falist í framleiðslu og sölu afurða beint frá býli. Fundurinn óskar eftir góðu og gagnkvæmu samstarfi við alla þá opinberu aðila og félagasamtök sem tengjast verkefninu.

Þær fréttir bárust síðan í dag frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einari K. Guðfinnssyni, þar sem segir m.a. að glöggt megi merkja að áhugi bænda fyrir heimavinnslu afurða aukist hratt um þessar mundir. Þarna felist vaxtarbroddur sem vert sé að hlúa að, því hvers kyns nýsköpun af þessu tagi geti orðið greininni lyftistöng.

Ráðherra hefur því skipað nefnd til ráðuneytis um hvernig best megi standa að og greiða fyrir þróun heimavinnslu og sölu afurða hjá bændum. Nefndinni er ætlað að hafa náið samráð við stjórn Beint frá býli – Félags heimavinnsluaðila og sé hlutverk hennar að liðka fyrir þessu og stuðla að árangursríku samstarfi hins opinbera og hagsmunaaðilanna.

Nefndina skipa:
Jón Gunnarsson, alþingismaður og formaður nefndarinnar
Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Matís ohf.
Ólöf Hallgrímsdóttir bóndi, Vogum í Mývatnssveit
Sigurður Jóhannesson, frkvstj. SAH Afurða, Blönduósi
Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælaöryggis og neytendamála hjá Matvælastofnun

Myndin er frá stofnfundi Félags heimavinnsluaðila að Möðrudal á Fjöllum þ. 29. febrúar sl. Af vef Beint frá býli.
Birt:
3. mars 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Félag heimavinnslubænda stofnað og ráðherra skipar nefnd“, Náttúran.is: 3. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/03/felag-heimavinnslubaenda-stofnao-og-stutt-af-raohe/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. október 2008

Skilaboð: