Bráðnandi jökull í BólivíuBráðnun jökla af völdum loftslagsbreytinga er ekki aðeins hafin á Íslandi, heldur hefur hún nú þegar áhrif í Chile, Perú og Bólivíu.

Um 99% af Chacaltaya-jöklinum í Bólivíu hafa horfið síðan árið 1940, ef marka má skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga í Rómönsku Ameríku sem unnin var fyrir Alþjóðabankann. Chacaltaya er yfir 18 þúsund ára gamall jökull í talsverðri hæð, en hann verður, ef að líkum lætur, fyrsti jökull heims til að hverfa alfarið sökum loftslagsbreytinga.

"Gróðurhúsaáhrifin eru helsta orsökin. Vísindasamfélagið hefur komist að niðurstöðu, þetta er af mannavöldum," sagði verkfræðingurinn Walter Vergara, höfundur skýrslunnar. Alþjóðabankinn segir að samkvæmt rannsóknum Veðurstofunnar í Perú hafi um 20% af rúmmáli jökla í Andesfjöllunum tapast síðan árið 1970.

Eyðing jöklanna ógnar vatnsframboði til 30 milljóna manna, og mun einnig hafa neikvæð áhrif á landbúnað og orkuöflun. Af þessum sökum þróar Alþjóðabankinn nú áætlanir um hvernig staðbundin samfélög geti lagað sig að breytingunum. Bankinn vinnur með japönskum stjórnvöldum að öflun gervihnattamynda sem eiga að afla gagna um hop jöklanna.

Talið er að flestir smærri jöklar á Cordillera-svæðinu, sem liggur á mörkum Perú, Bólivíu og Ekvador, muni minnka á næstu hálfu öld. Spálíkön benda til að margir jöklar sem liggja í lítilli hæð muni hverfa alfarið á næstu 10 til 20 árum. Smábændur í hlíðum Andesfjalla hafa þegar orðið varir við áhrifin, sem valda þeim kostnaðarauka vegna flutninga á ræktunarlandi

Vatnsaflið líður
Mælanleg áhrif verða einnig mikil á sviði orkuframleiðslu, því framleiðslugeta vatnsaflsvirkjana mun verða fyrir miklum neikvæðum áhrifum í kjölfar hops jöklanna. Um helmingur orkuframleiðslu í Bólivíu er úr vatnsafli, um 73% í Kólumbíu, 72% í Ekvador og 81% í Perú.

Í mati sínu á efnahagsáhrifum loftslagsbreytinganna segir Alþjóðabankinn að árlegur kostnaður orkugeirans í Perú vegna minnkandi vatnsflæðis verði allt að 1,5 milljarðar Bandaríkjadala -- ef skömmtun verður tekin upp -- en að minnsta kosti 212 milljónir dollara ef hægfara aðlögun verður beitt.

Alþjóðabankinn beitir sér nú fyrir sérstöku átaki til að bregðast við áhrifum af hopi jökla í Suður-Ameríku, í samstarfi við stofnunina Global Environment Facility. Helstu úrbætur felast í betra skipulagi vatnsbúskapar, að fleiri stoðum verði rennt undir orkuöflun og að þróa áveitur og nota nýjar tegundir korns í landbúnaði.

Mynd: Bólivísk fjallagrös í 5.346 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllunum. Hop jökla mun valda miklu fjárhagstjóni í löndum Suður-Ameríku sökum röskunar í vatnsbúskap, orkuframleiðslu og landbúnaði. Viðskiptablaðið

Birt:
9. maí 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Bráðnandi Andesjöklar valda usla“, Náttúran.is: 9. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/09/braonandi-andesjoklar-valda-usla/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: