Greenpeace samtökin gagnrýna framleiðendur leikjatölva og segja að á meðan leikjatölvurnar sjálfar séu framleiddar samkvæmt lögum þá innihaldi stýripinnarnir sjálfir ýmis eiturefni.

Tölvurnar sem um ræðir eru Playstation 3 frá Sony, Xbox 360 frá Microsoft og Nintendo Wii.

Greenpeace rannsökuðu hvaða efni eru notuð í tölvurnar og í ljós kom að í stýripinnum leikjatölvanna var mikið magn svonefndra þalata (e. thalate), sem notuð eru til að mýkja sveigjanlegt efni, t.d. plast utan um rafmagnsvíra.

Efnin eru ekki leyfð í leikföngum, en samkvæmt reglum Evrópusambandsins teljast stýripinnar leikjatölva ekki til leikfanga.

Talsmaður Greenpeace benti einnig á að engin örugg leið sé til að farga stýripinnunum og kallaði eftir því að framleiðendur þeirra kæmu upp móttöku og endurvinnslu fyrir stýripinna sem fólk hendir.

Talsmaður Sony, sem Greenpeace gagnrýna hvað harðast, benti á að fyrirtækið framleiði leikjatölvur sínar í samræmi við reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins.

Talsmaður Greenpeace sagði í móti að tölvuleikjaiðnaðurinn þurfi að gera meira en að fara eftir lögum. Einnig sagði hann Evrópureglur ekki nægilega strangar í þessum efnum og vísaði þar til tilskipunar Evrópusambandsins um takmörkun hættulegra efna.

Myndin er af X Box stýripinna sem er einn af þeim stýripinnum sem nefnd eru í fréttinni. Mynd VB.
Birt:
23. maí 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Greenpeace gagnrýna framleiðendur leikjatölva harðlega“, Náttúran.is: 23. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/23/greenpeace-gagnryna-framleioendur-lekjatolva-harol/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: