Brauð og korn á Náttúrumarkaði
Korn er uppistaða brauðmetis og hreinleiki kornsins er því það sem mestu máli skiptir varðandi brauðmat. Sætt brauð, kökur og kex hafa aftur á móti oft sykur og fitu sem aðaluppistöðuefni. Brauðmatur úr lífrænu korni er almennt umhverfisvænna en annað brauð, sérstaklega ef kornið er ekki flutt um langan veg. Mikil mengun vegna flutninga getur vegið upp á móti öllum þeim ávinningi sem lífræna ræktunin hefur haft í för með sér. Þess vegna skiptir máli að vita hvaðan kornið kemur sem bakað er úr. Gallinn er sá að þær upplýsingar liggja yfirleitt ekki á lausu. Flest kornmeti er flutt til landsins þó að breyting sé að verða þar á með aukinni kornrækt s.s. rúg-, bygg- og nú einnig hveitirækt. Íslensk framleiðsla er þá í öllu falli umhverfisvænni. Í lífrænt ræktuðu korni hafa ekki verið notuð fyrirbyggjandi lyf og varnarefni og einungis er notaður lífrænn áburður. Lífræn framleiðsla er einnig að flestra mati hollari fæða. Bannað er að auglýsa matvörur sem lífrænt ræktaðar nema þær uppfylli viðkomandi reglugerð Evrópusambandsins sem skilgreinir lífrænt ræktuð matvæli. Vottunarstofan Tún á Íslandi er meðlimur í IFOAM alþjóðasamtökum sem votta lífrænt ræktuð matvæli.
Matvælastofnun er ábyrg fyrir eftirliti með kornvörum sem seldar eru hér á landi.
Grafík: Tákn brauð- og korndeildar Náttúrumarkaðarins, hönnun: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran er ehf.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Brauð og korn á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 22. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/02/brau-og-korn-nttrumarkai/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2007
breytt: 28. mars 2014