Sæl Svandís. Ég man eftir því fyrir nokkrum árum að sjá heimagerðan brjóstsykur hjá þér og minntist þess þá að amma mín Guðbjörg Pálsdóttir gerði oft brjóstsykur. Hvítan piparmyntubrjóstsykur með rauðum röndum sem hún klippti í mola á listifenginn hátt. Við börnin sátum agndofa og horfðum á þennan galdur. Hún amma mín gekk í húsmæðraskóla í Danmörku og hefur sennileg lært þetta þar.

Hvar lærðir þú fyrst að gera brjóstsykur Svandís?
Ég heillaðist af brjóstsykurgerð í Tívolíinu í Kaupmannahöfn og hafði mér þann draum að hanna íslenskan brjóstsykur sem væri sá eini sinnar tegundar hér á landi. Haustið 2008 fór ég síðan á námskeið til að halda námskeið.

Brjóstsykurgerð á Íslandi hefur ekki verið almenn en hér á árum áður var þó eitthvað um hana og þá hjá frekar heldra fólki sem lærði brjóstsykurgerðina í Danmörku. Konur sem fóru til Kaupmannahafnar í húsmæðraskóla lærðu einmitt þessa iðn þar og komu með hana heim. En Brjóstsykurgerð hefur aldrei verið almenn hér á landi.

Á Vísindavefnum segir svo um brjóstsykur: „Orðið brjóstsykur þekkist í málinu að minnsta kosti frá því um miðja 19. öld. Það er tökuorð úr dönsku brystsukker og er sömuleiðis 19. aldar orð í Danmörku. Upphaflega var um að ræða einhvers konar lyf við brjóstverkjum sem bætt var með sykri. Þaðan kemur tengingin við brjóst. Smám saman fékk orðið nýja merkingu og var notað um sætindi, sæta mola. Í þeirri merkingu barst orðið hingað. Brystsukker virðist nú horfið að mestu úr dönsku máli.“

Afar okkar og ömmur tala um bolsíur og slikkerí, bolsíur um brjóstsykur og svo slikkerí um sælgæti almennt.

En kandís man ég vel eftir en áður fyrr var hann seldur á þræði og var slíkur kandísstrangi kallaður sköndull. Litlir einstakir molar voru aftur á móti kallaðir kandískörtur. Í dag fæst kandís í molum og á prikum, þráðurinn hefur runnið sitt skeið á enda.

Var brjóstsykursgerðin strax viðskiptahugmynd hjá þér eða bara ætluð til heimabrúks?
Ég ætlaði mér að vera bara í námskeiðshaldi og búa til brjóstsykur fyrir fjölskyldu og vini og var í því fyrstu 2 árin.

Hvað varð síðan til þess að þér datt í hug að framleiða brjóstsykur til að selja?
Mér bauðst að taka þátt í Handverksskúrnum hér á Selfossi og þá kviknaði þessi hugmynd um að fara að framleiða. Ég tók einnig þátt í Jólaþorpinu á Selfossi.

Stendur þú ennþá í því að halda námskeið eða einbeitir þú þér alveg að framleiðslu og markaðssetningu?
Ég held bæði stór sem smá námskeið, mest af svokölluðum örnámskeiðum en þau eru frekar hugsuð sem skemmtun en að læra brjóstsykurgerð. Þar fá allir að fylgjast með hvernig brjóstsykur er gerður og fá svo að búa sér til sína eigin mola eða sleikjó. Örnámskeiðin hafa verið gífurlega vinsælt hjá bekkjartenglum.

Hvernig hefur þér gengið að koma fyrirtækinu af stað?
Það hefur gengið vonum framar og brjóstsykurinn selur sig sjálfur en ég nota facebook og internetið mjög mikið til markaðsetningar og svo er ég með heimasíðuna www.kandis.is. Ákvað að fá bókhaldsfyrirtækið Hagsýn í Reykjavík til að sjá um allt sem viðkemur bókhaldinu en það fyrirtæki sérhæfir sig í að aðstoða frumkvöðla og þær eru hreint úr sagt frábærar. Þær sjá um allt meðan ég bý til minn brjóstsykur og ég þarf engar áhyggjur að hafa af bókhaldinu.

Finnur þú fyrir stuðningi við þig sem frumkvöðul í samfélaginu?
Ég fékk styrk frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands í vor og það fleytti mér aðeins áfram og gaf mér líka trú á því sem ég er að gera. En frumkvöðlaumhverfið hér á Íslandi er einn stór kóngulóarvefur. En ég komst í kynni við frumkvöðlafélagið KVENN og í gegnum það fór ég á ráðstefnuna EWIIN 2011 sem var haldin í Hörpu núna í haust þar sem 300 konur alls staðar frá Evrópu komu saman og svo er ég í frumkvöðlahópi fyrir konur sem heitir Korka en hann er starfandi á Facebook og er hittingur hjá þeim einu sinni í mánuði og í gegnum þann hóp eru haldnir ýmsir fundir/hittingar fyrir konur. Í síðustu viku var t.d. upplýsingafundur frá SVANNA lánatryggingasjóði kvenna og nýsköpunarþjónustu Landsbankans.

Hvað finnst þér vanta upp á að hægt sé að byggja upp öfluga framleiðslu frumkvöðla á Íslandi?
Það er að heilbrigð samkeppni er GÓÐ! Frumkvöðlar virðast yfirleitt vera hræddir við samkeppni og vinna ekki saman. Bara sem dæmi þá hefur t.d. farið ótrúlegur tími í það að finna út úr því hvar hægt sé að kaupa góða poka.

Það sem mér finnst vanta er að styrktarsjóðir, sem eru fjölmargir, hafi sama form á styrkumsóknum. Í dag þarf ég helst að vera með sér útgáfu af viðskipta- og rekstraráætlunum fyrir hvern sjóð sem ég reyni að sækja um og þar sem ég er ekki viðskiptafræðingur eða langskólagengin þá gefst ég oft upp því ég fæ þetta allt í hausinn aftur.

Svo virðist það vera að sjóðirnir hafi litla trú á kvenn-frumkvöðlum sem er furðulegt því við konur erum mjög passasamar og æðum nú ekki út í neina vitleysu.

Mér finnst einnig að verð á leyfum til framleiðslu og stofnunar fyrirtækis mætti vera lægra fyrir frumkvöðla þannig að fólk fari frekar út í að stofna eigið fyrirtæki.

Hvaða stefnu hefur þú varðandi innihaldsefnin í brjóstsykrinum þínum?
Ég ákvað strax að reyna að hafa hann sem náttúrulegastan þ.e. án allra aukefna og hafa litarefnin þau bestu sem völ er á, en ég kaupi þau beint frá Danmörku. Danir hafa mjög strangar reglur varðandi á E efnin. Cheerios morgunkornið er t.d. bannað í danaveldi og það er vegna litarefnanna sem í því eru. Engin aukefni s.s. þurrk-, bindi-, rotvarnar- og þráavarnarefni né bragðaukandi efna eru í vörunum mínum.

Hvert stefnir þú Svandís?
Minn draumur er að opna litla verslun/vinnustofu, þar sem gestir og gangandi geta komið og fylgst með hvernig brjóstsykur er gerður, svipað og litla búðin/vinnustofan í Tívolíinu í Kaupmannahöfn þar sem hægt er að fylgjast með og fá svo að smakka á heitum molum.

Takk Svandís og megi draumur þinn um búðina rætast!

Molarnir frá Svandísi Guðmundsdóttur (Svandísi Kandís) fást hjá Sjafnarblómum & Dótahúsinu á Selfossi, Blómabúð Akureyrar, Kaupangi á Akureyri, Búbót bændaverslun í Þingborg, Sunnlenska sveitamarkaðinum á Hvolsvelli, Frú Laugu - bændamarkaði og Búrinu sælkeraverslun og kaffihúsum Kaffitárs, Blómabúðinni Burkna Hafnarfirði, Kaffi Kolviðarhóli í Hellisheiðarvirkjun, Mýrinni í Kringlunni, blómabúðinni Hverablómum í Hveragerði og blómabúðinni 18 Rauðum Rósum í Kópavogi.

Ljósmyndir: Nokkur dæmi af brjóstsykurframleiðslu Svandísar.

Birt:
22. október 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslenskur brjóstsykur slær í gegn - viðtal við Svandísi Kandís“, Náttúran.is: 22. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/21/islenskur-brjostsykur-slaer-i-gegn-vidtal-vid-svan/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. október 2011
breytt: 26. október 2011

Skilaboð: