Á 70 ára afmæli Sólheima 5. júlí árið 2000 tók Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fyrstu skóflustungu að Sesseljuhúsi og tilkynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram 75 milljónir króna til byggingar hússins. Framkvæmdir hófust í júní árið 2001 og lauk þeim þann 5. júlí 2002 þegar eitthundrað ár voru liðin frá fæðingu Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur stofnanda Sólheima. 

Sesseljuhús
er sýningarhús um vistvænar og sjálfbærar byggingar. Val á byggingarefni í húsið er til fyrirmyndar frá umhverfissjónarmiði svo og öll orkunotkun innanhúss. Húsið verður notað sem miðstöð fyrir umhverfisfræðslu auk þess sem að þjónustumiðstöð Sólheima hefur aðgang að húsinu í samráði við Brekkukot. Þar munu fara fram fræðslufundir, ráðstefnur og námskeið um umhverfismál fyrir almenning, skóla, fyrirtæki, stofnanir og stéttarfélög. Á vef Sólheima eru haldgóðar upplýsingar um hvað vistvæn- og sjálfbær byggingarmáti felur í sér. Húsið verður leigt út til funda- og námskeiðahalds en Gistiheimilið Brekkukot annast rekstur þess.

Í heildina tekur starf Sólheima mið af kenningum Rudolfs Steiners ásamt starfi og hugsjónum Sesselju H. Sigmundsdóttir. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Einnig starfa Sólheimar eftir markmiðum International community og Global Eco network, eða byggðahverfa með skilgreind markmið, eins og það er nefnt á alþjóðavettvangi.

Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, Eco-village, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegum efnum og endurvinnslu. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í satt við náttúruna.

Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar - við fengum hana að láni frá börnum okkar.
Talið er að um 15 þúsund staðir og byggðahverfi í veröldinni hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi.

 

Birt:
8. október 2005
Uppruni:
Sesseljuhús
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ Hvað er „vistvæn mannvirkjagerð“ eiginlega?“, Náttúran.is: 8. október 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/vistvaen_mannvirkjagerd/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: