Hvað er „vistvæn mannvirkjagerð“ eiginlega?
Sesseljuhús er sýningarhús um vistvænar og sjálfbærar byggingar. Val á byggingarefni í húsið er til fyrirmyndar frá umhverfissjónarmiði svo og öll orkunotkun innanhúss. Húsið verður notað sem miðstöð fyrir umhverfisfræðslu auk þess sem að þjónustumiðstöð Sólheima hefur aðgang að húsinu í samráði við Brekkukot. Þar munu fara fram fræðslufundir, ráðstefnur og námskeið um umhverfismál fyrir almenning, skóla, fyrirtæki, stofnanir og stéttarfélög. Á vef Sólheima eru haldgóðar upplýsingar um hvað vistvæn- og sjálfbær byggingarmáti felur í sér. Húsið verður leigt út til funda- og námskeiðahalds en Gistiheimilið Brekkukot annast rekstur þess.
Í heildina tekur starf Sólheima mið af kenningum Rudolfs Steiners ásamt starfi og hugsjónum Sesselju H. Sigmundsdóttir. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Einnig starfa Sólheimar eftir markmiðum International community og Global Eco network, eða byggðahverfa með skilgreind markmið, eins og það er nefnt á alþjóðavettvangi.
Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, Eco-village, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegum efnum og endurvinnslu. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í satt við náttúruna.
Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar - við fengum hana að láni frá börnum okkar.
Talið er að um 15 þúsund staðir og byggðahverfi í veröldinni hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ Hvað er „vistvæn mannvirkjagerð“ eiginlega?“, Náttúran.is: 8. október 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/vistvaen_mannvirkjagerd/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 4. maí 2007