Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við málflutning Norðuráls
Umhverfisstofnun hefur gert athugasemdir við yfirlýsingu Norðuráls um bókhald stofnunarinnar yfir losun á gróðurhúsalofttegundum. Þetta kemur fram í frétt frá umhverfisráðuneytinu.
Norðurál hefur sagst hafna þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar að losun vegna flúorkolefna frá álverinu á Grundartanga hafi verið 319 þúsund tonn af CO2-ígildum á árinu 2006. Norðurál heldur því fram að hið rétta sé að losunin hafi numið að hámarki 126 þúsund tonnum.
Umhverfisstofnun segir útreikninga sína á útstreymi gróðurhúsaloftegunda í samræmi við reiknireglur vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Slík aðferð hefur að sögn Umhverfisstofnunar verið notuð í fimm ár.
Umhverfisstofnun segir jafnframt mælingar Norðuráls jafnframt ekki vera fullnægjandi: „Í yfirlýsingu Norðuráls virðist vera vísað til niðurstaðna mælinga sem stóðu yfir í eina viku árið 2003. Það er mat Umhverfisstofnunar að þau gögn uppfylli ekki framangreinda grunnkröfu."
„Rétt er að geta þess að Skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er með sérstakt ferli sem miðar að því að tryggja að útstreymisreikningar séu sambærilegir milli landa. Hluti af þessu ferli er að endurskoða reikninga hvers lands árlega og koma síðan með ábendingar um hvað megi betur fara. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við útreikninga Íslands á flúorkolefnum frá álverum í þessu ferli," segir jafnframt í frétt umhverfisráðuneytisins.
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við málflutning Norðuráls“, Náttúran.is: 26. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/26/umhverfisstofnun-gerir-athugasemdir-vio-malflutnin/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.