Um hundrað manns sóttu málþingið Suðurland bragðast best sem haldið var á Hótel Selfossi í gær. Dagskráin var bæði fjölbreytt og skemmtileg en tilgangur hennar var fyrst og fremst að kynna möguleikana sem felast í matvælaframleiðslu byggða á hefðum og staðbundnum hráefnum í bland við nýjar hugmyndir t.d. í hönnun og umgjörð matarins.

Alþjóðlegt vandamál, svæðisbundnar lausnir.
„Klasi“ er samvinnuform sem á að stuðla að samstarfi milli fyrirtækja á ákveðnu svæði, sem geta þó verið í samkeppni hvort við annað. Svokallaðir Vaxtarsamningar hafa verið kynntir víða um land en með þeim er gert mögulegt að klasar verði myndaðir og ákveðnu fé er varið til þess af hálfu stjórnvalda. Atvinnuþróunarfélög í hverjum landshluta vinna síðan með Nýsköpunarmiðstöð Íslands að því að kynna möguleikana sem felast í slíkri þátttöku. Nokkur fyrirtæki geta tekið sig saman og sótt um styrk til Vaxtarsamningsins í sínum landshluta.

Frumkvöðlar af Norðurlandi voru mættir suður til að segja frá reynslu sinni af þátttöku í klasasamstarfi á undanförnum árum. Markaðsmenn miðluðu af þekkingu sinni og hönnuður espuðu upp í fólki nýsköpunarandann í lok málþingsins. Matarkistan Skagafjarðar - Local food, er klasasamstarf í Skagafirði en Svanhildur Pálsdóttir hótelstjóri í Varmahlíð lýsti því hvernig verkefnið hafi ný st í hennar rekstri og kom því vel frá sér hve mikilvægt það er að nýta sér sérstöðu svæðisins og leyfa gömlum hefðum i matargerð að ryðja sér til rúms. „Local Food“ er hugtak sem kannski er ekki erfitt að þýða en óþarfi því með því að nota það með heiti héraða og býla er hægt að ná til erlendra ferðamanna því hugtakið er löngu þekkt um allan heim.

Að baki hugtakinu „Slow Food“ liggja alþjóðleg samtök en hugmyndafræði þeirra er ákveðin fyrirmynd í hugmyndafræði matarklasanna hér á landi og þýðir í raun að með því að líta sér nær megi ekki aðeins njóta betur, heldur ná fram sérstöðu og skapa verðmæti án þess að leita langt yfir skammt. Friðrik Valur Karlsson eigandi veitingastaðarins Friðriks V á Akureyri kynnti klasann Matur úr héraði - Local food, matarmenningu í Eyjafirði sem fór af stað í maí 2006. Nú eru 27 þátttakendur í klasanum og mikil ánægja meðal þátttakenda. Allir sjá sér hag í að koma kúnnunum í héraðið þar sem að fyrirtækin geta síðan bitist um þá í samkeppni. Einmitt þetta form gerið klasamyndunina ekki aðeins markaðstæki heldur hvetur fyrirtækin í raun til innbyrðis samkeppni sem ætti um leið að þýða að neytandinn fær bæði betri vöru og þjónustu.

Ólöf Hallgrímsdóttir sem rekur Vogafjós í Mývatnssveit kynnti fyrirtæki sitt og rak sögu staðarins en Ólöf er þátttakandi í verkefninu Beint frá býli auk þess að vera í stýrihóp verkefnisins. Vilhjálmur Vernharðsson frá Möðrudal á fjöllum sagði frá ferðaþjónustunni og kjötframleiðslunni sem tókst að rífa upp þrátt fyrir að staðnum hafi verið kippt úr sambandi við þjóðveginn. Gott dæmi um hvernig hægt er að snúa ógnum upp í tækifæri ef að viljinn er fyrir hendi. Ljóst var á öllum framsögumönnum að í raun standi ekkert framýróun í ferðaþjónustu og nýsköpun á býlum landsins í vegi, nema ef vera ætti þröngsýni eða leti.

Friðrik Eysteinsson sölu- og markaðsstjóri SS tók fyrir vörumerkjaþróun innan fyrirtækisins og Gunnlaugur Karlsson markaðsstjóri á Sölufélagi garðyrkjumanna sagði frá átakinu „Íslenskt grænmeti - sérmerkt þér“ sem sett var í gang um það leiti sem innflutningur á grænmeti var gefinn frjáls fyrir nokkrum árum. Báðar frábærar kynningar og pössuðu vel inn í dagskrána.

Hönnuðirnir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir kynntu hugtakið „matarhönnun“ sem er listgrein út af fyrir sig. Fóru þær vítt og breytt um völl og sýndu verk matarhönnuða sem standa framarlega í heiminum í dag. Þær kenna við Listaháskólann þar sem nú er að hefjast önnur umferð í verkefninu „stefnumót hönnuða og bænda“ en þar vinna hönnunarnemar í Listaháskólanum með þremur frumkvöðlum á Suðurlandi. Verkefnið hlaut nýlega styrk úr Tækniþróunarsjóði sem að gerir það að verkum að fjármagn er fyrir hendi til að endurtaka leikinn í þrjú ár og koma árlega þremur vörum áfram á framleiðslustig. Þetta er mjög jákvætt og mikilvægt skref fyrir nýsköpun í matariðnaði hérlendis og ber vott um jákvætt og nútímalegt hugarfar hjá Tækniþróunarsjóði.

Berglind Hallgrímsdóttir frá Impru tók að lokum syrpu í kynningum á þeirri þjónustu og mögulegum styrkveitingum sem að Nýsköpunarmiðstöð Íslands getur boðið frumkvöðlum upp á. Eftir málþingið var boðið til smökkunar á afurðum sunnlenskra framleiðanda en nokkrir þeirra voru svo heppnir að vera valdir til stefnumóts við unghönnuði Listaháskólans. Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr því ferli en þann 15. mars nk. verður afraksturinn opinberaður.

Sjá vef VSSV - Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja.
Sjá lista yfir Beint frá býli þátttakendur hér á Grænum siðum.

Ná í fyrirlestra; Matarkista Skagafjarðar, Klasamyndun í Eyjafirði, „Mörkun“ eða vörumerkjastjornun í matvælaiðnaðaiMarkaðsetning á íslensku grænmeti, Stefnumót hönnuða og bænda, Styrkveitingar og verkefni, Impra

Ljósmyndir: Efsta myndin er af fundinum á Hótel Selfossi. Þriðja að neðan er af Birgi Þórissyni eiganda Klaustursbleikju. Önnur að neðan er af Dorothee Lubecki frá Löngumýri en þar er að fara í gang sultuframleiðsla. Neðsta myndin er af Grími kokki að kynna einum gestanna plokkfiskframleiðslu sína.

Birt:
31. janúar 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Suðurland bragðast líka vel...“, Náttúran.is: 31. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/30/suourland-bragoast-lika-vel/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. janúar 2008
breytt: 14. október 2008

Skilaboð: