Íhaldsmenn í Bretlandi setja fram metnaðarfullar tillögur sem miða að því að gera London að höfuðborg grænna fjárfestinga.

George Osborne, sem fer með fjármál í skuggaráðuneyti íhaldsmanna í Bretlandi, lagði í vikunni fram tillögur um að setja á fót sérstakan hlutabréfamarkað til hliðar við Kauphöll Lundúna sem sérhæfi sig í grænum tæknifyrirtækjum.

Markaðurinn, sem nefndur er "Green Environmental Market" eða GEM, yrði byggður á velgengni Aim, sem er undirmarkaður Kauphallar Lundúna fyrir lítil og meðalstór sprotafyrirtæki. Osborne leggur til að GEM nyti stuðnings í formi skattaívilnana og einfaldaðs reglugerðarumhverfis, og er haft eftir honum í frétt Financial Times að Clara Furse, forstjóri Kauphallar Lundúna, sé til ráðgjafar um hinn nýja markað.

Íhaldsmenn líta á tillögurnar sem leið til að fá markaðsöflin til liðs við skuldbindingar Breta um að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í 15% fyrir árið 2020, með því að auka fjárstreymi til fyrirtækja sem starfa á því sviði.

Bretar dragist ekki aftur úr
Í frétt Financial Times er fullyrt að tillögurnar séu einnig liður í áformum íhaldsmanna um að efla tengsl við City-fjármálamiðstöðina í Lundúnaborg. Innan City hefur í auknum mæli komið fram gagnrýni á stefnu ríkisstjórnar Verkamannaflokksins, þar á meðal hugmyndir um aukinn fjármagnstekjuskatt og sérstaka skattlagningu á erlenda ríkisborgara með aðsetur í London.

Osborne sagði í viðtali við Financial Times að Bretlandi gæfist kostur á að vera leiðandi í þróun "grænna" tæknilausna, en þyrfti að gæta þess að dragast ekki aftur úr öðrum, einkum Bandaríkjunum. "Fjórðungur nýrra áhættufjárfestinga í Kísildalnum fer nú í græna tækni," sagði hann.

Áætlanir flokksins voru kynntar á miðvikudag og er vísað til velgengi Aim sem hefur náð miklum árangri í að laða til sín ný fyrirtæki. GEM-markaðurinn yrði þó fyllilega aðskilinn frá Aim og hefði sín eigin þátttökuskilyrði. Osborn hefur beðið Marcus Stuttard, forstjóra Aim, að vera til ráðgjafar um skatta- og reglulgerðarumhverfi GEM sem ætlað er að tryggja alþjóðlegt aðdráttarafl markaðarins.

Breski Íhaldsflokkurinn hefur að undanförnu sótt mjög í sig veðrið í umhverfismálum en hefur setið undir gagnrýni fyrir að vera meiri í orði en á borði. Til að mynda hefur flokkurinn að sögn Financial Times komið sér hjá því að taka afstöðu í "erfiðum" deilum sem tengjast umhverfismálum, svo sem skattlagningu alþjóðaflugs og gjaldtöku fyrir bílastæði í stórmörkuðum utanbæjar.

Osborne sagði að of mikið af umræðunni um umhverfismál snerist um "hluti sem ekki má gera" og að flokkurinn vildi "snúa skoðanaskiptum að hlutunum sem hægt er að gera."

Myndatexti: Mynd efst t.h. George Osborne fer með fjármál í skuggaráðuneyti íhaldsmanna í Bretlandi. Hann leggur nú fram tillögur um grænan hlutabréfamarkað sem byggi á velgengni Aim-markaðarins í Kauphöll Lundúna.Neðri myndin er af George W. Bush forseta Bandaríkjann. Myndir frá Viðskiptablaðinu.

Birt:
29. febrúar 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Vilja grænan hlutabréfamarkað“, Náttúran.is: 29. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/29/vilja-graenan-hlutabrefamarkao/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: