Jarðfræðilega séð er Ísland ungt land eða um 20-25 milljón ára. Upphleðsla landsins hefur öll farið fram á síðari hluta nýlífsaldar. Landið er nær allt gert úr hraunlögum með setlögum á milli. Hraunlögin hafa hlaðist upp í eldgosum enda liggur Ísland á svokölluðum heitum reit þar sem eldgos eru tíðari en annarsstaðar.

Jarðmyndunum Íslands er skipt gróflega í fernt. Elst er blágrýtismyndunin frá síðtertíer sem er yst á Vestfjörðum og austast á Austfjörðum. Næst að aldri er grágrýtismyndunin sem varð til á fyrri hluta ísaldar og móbergsmyndunin sem varð til á síðari hluta ísaldar.

Þessar þrjár myndanir mynda í grófum dráttum berggrunn landsins sem fjórða og yngsta myndunin hvílir á. Hún er einkum gerð úr lausum jarðlögum svo sem árseti, jarðvegi, gjósku og ungum hraunum.

Birt:
26. júní 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Landslagið“, Náttúran.is: 26. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/landslagi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. maí 2014

Skilaboð: