Sjálfboðaliðar vinna að undirbúningi landnámshænsnabús í Alviðru
Sjálfboðaliðar frá SEEDS samtökunum eru þessa dagana að vinna í Alviðru umhverfisfræðslusetri Landverndar við Sogið í Ölfusi. Eitt af verkefnunum sem sjálfboðaliðarnir vinna að er undirbúningur landnámshænsnabús en til þess að kynna sér aðbúnað og umhirðu landnámshænsna var í dag farið í kynnisferð til Valgerður Auðunsdóttir að Húsatóftum á Skeiðum. Að Húsatóftum rekur Valgerður bú þar sem hún ræktar landnámshænsn, kornhænur, akurhænur og Peking-endur með miklum myndarbrag.
Eigendum landnámshænsna hefur fjölgað gífurlega síðan Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna var stofnað árið 2003 en einn af stofnendum félagsins er Valgerður Auðunsdóttir en Jóhanna G. Harðardóttir var aðalhvatamaður að stofnun félagsins.
Landnámshænur bjarga sér vel úti í náttúrunni og eru þess vegna tilvaldar til lausagöngu. Eggin úr hænum sem fá að ganga frjálsar úti og tína upp í sig gróður, skordýr, matarleyfar og fleira góðgæti eru sannarlega miklu betri og heilnæmari en úr hænum sem eingöngu nærast á tilbúnu fóðri. Egg frjálsra landnámshæna hafa fengið orð fyrir að vera einstaklega bragðmikil og góð. Hægt er að sjá skrá yfir þá sem selja eggin á haena.is.
Hænsnaskítur er einn virkasti áburður sem fyrir finnst og má því með sanni segja að landnámshænsnabúskapur sé vistvænn í alla staði auk þess að styðja viðhald íslenska landnámsstofnsins.
Mynd: Frá heimsókn SEEDS sjálfboðaliðanna í Húsatóftir í dag. T.v. Marta Olivo, Valgerður Auðunsdóttir og Maria José Haro. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sjálfboðaliðar vinna að undirbúningi landnámshænsnabús í Alviðru“, Náttúran.is: 3. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/03/sjalfbodalidar-vinna-ad-undirbuningi-landnamshaens/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010