Náttúruverndaráætlun er aðeins óskalisti
11. Stefnumót Stofnunar Sæmundar Fróða og Umhverfisráðuneytisins sem haldið var í hádeginu í gær og fjallaði um náttúruverndaráæltun var vel sótt og margt áhugavert kom þar fram. Frummælendur voru þeir Sigurður Á. Þráinsson frá umhverfisráðuneytinu og dr. Hilmar J. Malmquist frá Náttúrustofu Kópavogs en þeir fjölluðu um kosti, galla og efndir náttúruverndaráætlunar 2009-2013.
Sigurður Á. Þráinsson byrjaði á að lýsa áherslum áætlunarinnar í stórum dráttum. Í raun fylgir tilskipun umhverfisráðherra um gerð þingsályktunartillögu að náttúruverndaráætlun eins og flest annað sem sný r að þessum málaflokki, varla nokkurt fjármagn til vinnunnar. Vinna við áætlunina fór allt of seint af stað (seint á árinu 2007) en unnið var út frá þeim gögnum sem sannarlega eru unnin í takt við reglur Evrópusambandsins og geta þannig tengst „nátturuverndarneti“ um einstaka lífverur, vistgerðir, plöntu- og jarðfræðisvæði sem ástæða er til að vernda sökum sérstæðu eða aðsteðjandi hættu.
Hillmar J. Malmquist byrjaði á að nefna að markmið áætlunarinnar sé að halda áfram að byggja upp net verndarsvæða til þess að tryggja verndun tegunda, líffræðilegrar fjölbreytni, landslags og náttúru. Hann benti réttilega á að vatn- og vatnasvið væru ekki tekið inn i myndina, nema sem búsvæði lífvera í áætluninni, þrátt fyrir að í lið b.c. og d. í 37. gr. í lögum um náttúruvend (44/1999) sé skýrt kveðið á um að vatnasvæði landsins (stöðuvötn, tjarnir, mýrar, flóar og fossar) beri að vernda sérstaklega. Aftur á móti væri í áætluninni lagt til að 31 plöntutegund verði friðlýstar og nokkrir hryggleysingjar.
Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrfræðistofnunar Íslands svaraði Hilmari á þann veg að það væri ekki um auðugan garð að gresja með tilbúin og frambærileg gögn á öllum þeim sviðum sem annars gætu eða ættu að vera inni í áætlun sem þessari. Þess vegna liggja áherslur áætlunarinnar óhjákvæmilega á þeim vígstöðvum sem hvað best standa, eða á sviði plöntu- og dýralíffræði og jarðfræði. Þó er landslag sem slíkt ekki mikið metið því enginn hefur þróað (eða ekki fæst sátt um) nógu áreiðanlega aðferðafræði til að meta landslag þó að tilraun sé verið að gera með það í 2. hluta Rammaáætlunar sem nú er verið að vinna og 100 milljónum hefur verið varið til. Það eru þó ekki komnar neinar niðurstöður varðandi mat á landslagi.
Í stuttu máli kom í ljós hvað við erum í raun óskaplega aftarlega á merinni. Það verður bara að segjast eins og er. Náttúruverndaráætlun 2009-2013 er gatasigti þar sem engan vegin er hægt að tala um heildstæð vinnubrögð menningarþjóðar.
Síðan er nú það sorglega að síðasta náttúruverndaráætlun sem gerði ráð fyrir 14 friðlýsingum er ekki lengra komin en svo að aðeins 2 hafa hlotið friðlýsingu, ein af tveim á síðustu dögum ráðherratíðar fráfarandi umhverfisráðherravar var plöntusvæði (Vatnshornsskógur) en hitt er fuglasvæði sem verndað var árið 2005 (Guðlaugstungur). Það er ekki hátt afgreiðsluhlutfall og því aðeins hægt að tala um náttúruvernaráætlun sem óskalista um eitthvað sem gaman væri að fá verndað. Svo er allt annar handleggur hvort fé sé sett í að hraða verndun eða ekki eða hvort áætlunin lendi hreinlega ofan í skúffu. Það sannast hér að góður ásetningur örfárra áhugamanna um náttúruvernd er ekki alltaf nægjanlegur til að koma nokkru til leiðar.
Annað er að Náttúruvendaráætlun er eitthvað allt annað en náttúruminjaskrá, náttúruvætti, þjóðgarðar of friðlönd og því erfitt að sjá hvernig þetta spilar allt saman. Það verður margt að breytast til þess að náttúran, náttúruvernd og rannsóknir hljóti þá verðskulduðu athygli og „fjármagn“ sem þarf til að standa mynduglega að því að búa þannig í haginn að landið sjálft og lífverur þess hljóti þá umhyggju sem þeim ber.
Sjá nánar um tillögu að nýrri náttúruverndaráætlun.
Sjá glærur frá stefnumóti Umverfisráðuneytisins og Sæmundar fróða í gær:
Fyrirlestur Sigurðar Á. Þráinssonar og Hilmars J. Malmquist.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúruverndaráætlun er aðeins óskalisti“, Náttúran.is: 5. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/05/natturuverndaraaetlun-er-aoeins-oskalisti/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. september 2009