Í fréttaumjölun Björns Malmquist á ríkistútvarpinu þ. 26. mars segir að mál þetta hafi komið upp í kjölfar þess að sveitarstjórn Flóahrepps skrifaði í júlí 2007 undir samkomulag við Landsvirkjun um mál sem varða byggingu og rekstur Urriðafossvirkjunar, vegna aðalskipulags sveitarfélagsins - eins og segir í samkomulaginu.

Landsvirkjun ætlaði þannig að bera allan kostnað af gerð deiliskipulags vegna þessarar virkjunar, auk þess að endurbyggja vegi, koma upp ferðamannaaðstöðu og kosta endurbætur á farsímakerfi á svæðinu, ásamt öðrum verkefnum.

Eigendur jarðarinnar Skálmholts - sem liggur að Þjórsá nálægt fyrirhuguðu virkjunarstæði, kærðu þetta samkomulag til samgönguráðuneytisins í mars í fyrra - töldu sveitarfélagið ekki hafa heimild til að gera samkomulag af þessu tagi og sögðu að með þessu hefði Landsvirkjun verið að kaupa sér aðalskipulag. Ráðuneytið kvað upp sinn úrskurð í ágúst - rúmu hálfu ári eftir að kæran barst - og hafnaði því að fella samkomulagið úr gildi. Umboðsmaður Alþingis fékk síðan málið síðasta haust og kvað upp sinn úrskurð þ. 24. mars sl. en hann telur að meðferð ráðuneytisins á því hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög - sem til dæmis kveða á um tveggja mánaða frest til að úrskurða í málum af þessu tagi. Ennfremur segir að að ráðuneytið hefði átt að taka efnislega afstöðu til samkomulags Flóahrepps og Landsvirkjunar. Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að málið verði tekið upp aftur, fari kærendur fram á það...sem þeir gerðu í gær 30. mars. 

Náttúran.is hefur fylgst náið með málinu frá byrjun. Sjá sem dæmi frétt um stefnu eigenda Skálmholtshrauns frá 11.06.2008 og fleiri tengdar fréttir sem birtast til hægri á siðunni þegar komið er inn í fréttina. Einnig er hægt að finna fréttir tengdar Þjórsá og virkjunaráformum þar með því að slá inn leitarorðið „Þjórsá“ í leitarvélina efst á siðunni.

Mynd: Frá mótmælum við Þjórsá þ. 27. júlí 2008. Skilti sýnir hve hátt fyrirhugað Hagalón myndi ná ef virkunarhugmyndir Landsvirkjunar í Þjórsá ná fram að ganga.

Birt:
31. mars 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Keypti Landsvirkjun sig inn á aðalskipulag?“, Náttúran.is: 31. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/31/keypti-landsvirkjun-sig-inn-i-aoalskipulag/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: