Aðalfundur Landverndar, haldinn 3. maí 2008 í Norræna húsinu í Reykjavík, lýsir verulegum áhyggjum yfir þeim vinnubrögðum sem látin eru viðgangast í tengslum við uppbyggingu stóriðju og annars orkufreks iðnaðar á Íslandi. Því er beint til stjórnvalda að gert verði hlé á frekari uppbyggingu á meðan að vinnubrögð eru lagfærð og færð í nútímalegt horf. Þá er hvatt til þess að mótuð verði orkunýtingarstefna til framtíðar og að uppbygging taki mið af náttúruverndaráætlun og vönduðu mati þar sem tímasetningar, verndargildi, hagkvæmni, umhverfiskostnaður og stöðugleiki í hagkerfinu gegnir lykilhlutverki. Hvatt er til þjóðarsáttar um verndun fjölmargra þeirra svæða sem nú er verið að meta í 2. áfanga rammaáætlunar, þjóðinni til ánægju og yndisauka um ókomna framtíð. Jafnframt er skorað á stjórnvöld að tryggja betri vinnubrögð í stjórnarráði Íslands og opinberum stofnunum þannig að afgreiðsla mála verði í samræmi við lög og reglugerðir.

Greinargerð:

Margvíslegar ástæður liggja að baki ofangreindri ályktun. Er þær helstar hér upp taldar:

  1. Ekki hefur farið fram heildstætt mat á hagkvæmni, arðsemi og heildaráhrifum stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið. Slíkt mat ætti að vera ein af þeim forsendum sem þyrftu að vera fyrir hendi áður en að ráðist er í verkefni.
  2. Niðurstöður 2. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma liggja ekki fyrir. Slíkt yfirlit er forsenda þess að hægt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir um landnýtingu er varðar hagsmuni allra landsmanna.
  3. Draga þarf lærdóm af ný afstöðnum stórframkvæmdum við Kárahnjúka, bæði á grundvelli verkfræði-, hagfræði-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Þá þarf að fara vandlega yfir ferlið sem lá til grundvallar ákvarðanatöku um að ráðast í framkvæmdirnar. Þessir lærdómar liggi fyrir áður en ráðist er í nýjar stórframkvæmdir.
  4. Langtíma orkunýtingarstefna hefur ekki verið mótuð. Slík stefna myndi auðvelda framkvæmdaraðilum áætlanagerð og stuðla að stöðugleika.
  5. Uppbygging stóriðju hefur ekki verið nægilega skipulögð og ákvarðanir teknar án heildar- og langtímayfirsýnar. Þannig er staðsetning nýrra verksmiðja t.d. í áliðnaði ákveðin án þess að nægilegt tillit sé tekið til hagkvæmrar uppbyggingar raforkuflutningskerfis landsins. Þetta gæti aftur leitt til umfram línulagna, óhagræðis, og aukins kostnaðar fyrir almenna neytendur.
  6. Ekki er búið að koma á landsskipulagi á Íslandi en það fyrirkomulag miðar að því að tekið sé einnig tillit til heildarhagsmuna þjóðarinnar þegar stórframkvæmdir sem varða alla landsmenn eru annars vegar, jafnt sem staðbundinna hagsmuna. Mikilvægt er að löggjafinn hafi stefnumótunarhlutverk í skipulagsmálum og móti
    landsskipulagsstefnu.
  7. Aðkoma almennings að framkvæmdaferlinu er mjög takmörkuð. Þótt almenningi og samtökum sé gefinn kostur á að gera athugasemdir í gegnum skipulagsferli og umhverfismat þá er aðeins kallað eftir slíkum athugasemdum seint í ferlinu eftir að meginákvarðanir hafa verið teknar. Minnt er á að tilgangur mats umhverfisáhrifum er að hægt sé að gera sér grein fyrir umhverfisáhrifunum og að stuðla að því að lágmarka umhverfisáhrif tiltekinnar framkvæmdar, ekki að koma í veg fyrir framkvæmdina sjálfa. Þegar pólítísk ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmd, sama hversu óskynsamleg hún kann að vera, er oft erfitt að snúa við.
  8. Minnt er á að Ísland er eina landið á evrópska efnahagssvæðinu þar sem Árósarsamningurinn hefur ekki verði fullgiltur.
  9. Ríkisvaldið virðist hafa fá stjórntæki til að stýra framkvæmdum tengdum orkufrekum iðnaði inn á heillavænlega braut. Slík verkefni eru fyrst og fremst rekin áfram af sveitarstjórnum og orkukaupendum sjálfum, án mikils tillits til
    heildarhagsmuna þjóðarinnar. Þetta ástand er ótækt.
  10. Orkuauðlindir Íslands eru takmarkaðar og stórum hluta vatnsafls landsins hefur þegar verið ráðstafað til eins iðnaðar, álframleiðslu. Ekki hefur verið unnið áhættumat fyrir íslenska hagkerfið vegna þróunar í áliðnaði í heiminum. Með hliðsjón af þessu, svo og að eftirspurn eftir orku fer vaxandi og orkuverð hækkandi, er varað við því að hærra hlutfall íslenskrar orku sé bundið í langtímasamningum til þessa eina iðnaðar.
  11. Minnt á að gengið hefur verið hart að náttúru Íslands við orkuöflun fyrir umdeild stóriðjuverkefni á undanförnum árum. Fyrir utan Kárahnjúkavirkjun og tengdar framkvæmdir þykir ekki hafa tekist vel til með Hellisheiðarvirkjun þar sem sjónræn og önnur áhrif eru umtalsverð. Mjög mikil ásókn er í orkuauðlindirnar og ef allar þær hugmyndir sem fram hafa komið í íslensku samfélagi um orkufrekan iðnað yrðu að veruleika myndi það þýða orkuöflun sem nemur um tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Fjölmörgum rannsóknarleyfum hefur nú þegar verið úthlutað á áður óröskuðum jarðhitasvæðum, án þess að verndargildi svæðanna hafi verið metið. Rannsóknarleyfi ein og sér geta haft í för með sér töluvert rask á náttúruverðmætum eins og dæmin sanna.
  12. Því miður eru dæmi þess að stjórnvöld og stofnanir hafi afgreitt mál án þess að gætt sé nægilega vel að lögum og reglugerðum. Þannig var rannsóknarleyfi úthlutað í Gjástykki tveimur dögum fyrir síðustu Alþingiskosningar án þess að leitað væri lögboðinnar umsagnar umhverfisráðuneytisins. Þetta leyfi hefði átt að afturkalla en var ekki gert. Einnig er bent á að rétt sé að meta matsskyldar framkvæmdir sem háðar eru hver annarri (s.s. orkuöflun, orkuflutningar og álver) með heildstæðum hætti. Heimildir til slíks í lögum hafa ekki verið nýttar.
Birt:
11. maí 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um verklag í tengslum við stóriðju “, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/07/alyktun-um-verklag-i-tengslum-vio-storioju/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. maí 2008
breytt: 11. maí 2008

Skilaboð: