Saga og Jökull
Saga og Jökull á Vesturlandi er vöruþróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu með áherslu á afþreyingu, náttúru- og menningarfræðslu fyrir alla fjölskylduna. Að verkefninu standa 10 aðilar víðsvegar á Vesturlandi.
Hver aðili er kynntur á ævintýrakorti (sjá mynd) þar sem sérstaklega vel er tekið á móti fjölskyldum og börnum. Á Eiríksstöðum í Dölum og í Landnámssetrinu í Borgarnesi er hægt að kynnast lífi víkinga eins og Agli Skallagrímssyni og Leifi heppna, sem fann Ameríku. Í heimsókn í Reykholt fær fjölskyldan innsýn í verk og starf Snorra Sturlusonar sem skrifaði Snorra-Eddu og heimili annars rithöfundar, Halldórs Laxness, að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Náttúran er í aðalhlutverki í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og í ævintýrasiglingum Sæferða. Á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði fá gestir að upplifa lífið á sveitabæ. Það opnast heill heimur og brúður lifna, í Brúðuheimum í Borgarnesi. Þá er ekki lítið ævintýri að heimsækja heim tröllanna í Fossatúni í Borgarfirði, eða skoða leikfangasafn með 50 ára gömlum leikföngum í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði.
Þú getur notað ævintýrakort Sögu og Jökuls til að skipuleggja ævintýraferðalagið þitt. Smelltu hér til að prenta út kortið.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Saga og Jökull“, Náttúran.is: 4. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/04/saga-og-jokull/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.