Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistar- og leiðsögumaður hélt erindi um náttúruna og sjálfsmynd Íslendinga á Umhverfisþingi:

Umhverfisráðherra, góðir fundargestir til hamingju með þetta þing. Ég vil byrja á að fagna því sem kom hér fram hjá ráðherra í gær að nú skuli vera vilji í umhverfisráðuneytinu til að skoða hvort friðlýsa megi Langasjó, Torfajökulsvæðið, Kerlingafjöll, Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót og Grændal. Og ef vatnasvið Jökulsár á Fjöllum verður friðað þýðir það að Kverkáin verður ekki tekin inní Kárahnjúkavirkjun einsog sumir óttast að muni gerast fyrr eða síðar. Til auka hagkvæmni virkjunarinnar eins og það verður kannski kallað.

Kverkáin og umhverfi hennar er reyndar lítt þekkt – einusinni gekk ég með hóp úr Grágæsadal að upptökum Kverkár yfir sporðinn á Brúarjökli, inná Kverkárnes sem er áreiðanlega einhver afskekktasti staður á landinu. Áfram að Þorbergsvatni og Hveragili og þaðan inní Kverkfjöll. Þetta var 6 daga ferð um ótrúlega stórbotið landslag sem næstum enginn þekkir. Nú í sumar gekk ég upp með Skjálfandafljóti frá Aldeyjarfossi upp á hálendið í gegnum Vonarskarð og inní Nýjadal. Þetta var líka 6 daga ferð um stórbrotið landslag. Leið sem fáir þekkja. Sannleikurinn er sá að enný á árið 2007 finnast á Íslandi lítt þekkt og lítt könnuð svæði. Það er magnað og það er svo sannarlega gaman að vera gönguleiðsögumaður í þessu landi en það má líka spyrja „af hverju eru stór svæði landsins svo lítið þekkt“? Getur verið að Íslendingar hafi ekki svo mikinn áhuga á landinu og náttúru þess? Getur verið að það skorti eitthvað i uppeldi og menntun okkar. Ég hef stundum verið að velta þessu fyrir mér. Eitt er þó alveg víst, að náttúran hér og landslagið er einstakt. Þóra Ellen Þórhallsdóttir hefur oft bent á einstakt safn náttúrufyrirbæra sem við höfum hér á þessu litla landi og jarðfræðilega er Ísland einstök smíð, ég heyrði Pál E. Einarsson jarðeðlisfræðing segja það í útvarpinu um daginn. En hver eru tengsl Íslendinga við þessa náttúrusmíð, hvaða stöðu skyldi hún hafa í vitund okkar og menningu?

Þetta hefur aðeins verið rannsakað. Í rannsókn sem Þorvarður Árnason heimspekingur og líffræðingur gerði ásamt kollegum sínum í Danmörku og Svíþjóð var meðal annars spurt hvað væri mikilvægasta þjóðartákn Dana, Íslendinga og Svía. Niðurstaðan var sú að fyrir Dönum og Svíum var þjóðfáninn mikilvægasta þjóðartáknið sem er að mörgu leyti mjög rökrétt, en í hugum Íslendinga var landslagið mikilvægasta þjóðartáknið.

Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur hefur rannsakað tilurð og sögu íslenskra þjóðartákna og hann hefur meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að í dag hafi íslensk náttúrúra tekið við af íslenskri tungu sem megintákn þjóðarinnar.

Þetta eru áhugaverðar rannsóknir og niðurstöður og ég held að þær séu ekki endilega í mótsögn við það sem ég var að að segja; að stór landsvæði séu enný á lítið þekkt. Vitundin um landslag getur verið manni mjög mikilvæg, jafvel þótt maður hafi aldrei komið þangað. Ég held samt að það væri æskilegra að þeir sem hér búa þekktu landið og náttúruna. Ég held að það muni gera lífið landinu enný á áhugaverðara, ég held að það muni auka lífsgæðin í landinu

Hvernig birtist okkur íslensk náttúra og íslenskt landslag í daglegu umhverfi okkar? Ég hef ekki gert vísindalega könnun á því en mér sýnist í fljótu bragði að það sé einkum á þrennan hátt.
Í fyrsta lagi birtist okkur íslensk náttúra í ótal fréttatímum sem orkulind. Þá er augljóslega aðeins horft á einn þátt náttúrunnar og um leið verður landslagið eingöngu fyrirheit um orku. Skynjunin mótast þá algjörlega af orkuvæntingunum – en eins og við vitum er sú skynjun farin að leika pólitíkusana nokkuð grátt hér á landi.

Í öðru lagi birtist íslensk náttúra og landslag næstum daglega sem baksvið í bílaauglýsingum. Já daglega er okkur kynnt landið sem leikvöllur fyrir flotta jeppa. Jepparnir eru gjarnan sýndir einsog villt skepna sem geysist yfir holt og hæðir og þeir eru fótósjoppaðir inn í ósnortið landslag þar sem eru hvorki vegir né slóðar. Um daginn sá ég einn slíkan jeppa frá Bílabúð Benna fleyta kerlingar yfir laugina í Landmannalaugum

Í þriðja lagi sjáum við íslenskt landslag í bókum íslenskra landslagsljósmyndara. Þar er náttúran oftast algjörlega mannalaus, ósnortin, hrein, upphafin, næstum heilög.

En hvar er allt fólkið? Hvar eru hin mannlegu tengsl? Hvar er þjóðin sem lítur á náttúrina sem sitt helsta tákn? Hvar eru börnin og unglingarnir? Hvar eru hversdagsleg og afslaöppuð tengsl við náttúruna?

Ég var í fyrra í Noregi í hálft ár og sá ekki betur en að þar væri sambýlið við náttúruna miklu mikilvægari þáttur í daglegu lífi fólks en hér á landi. Og samt er náttúran og landslagið í Noregi ekkert lamb að leika sér við. Norðmenn gera mikið af því að ganga upp á heiðar og fjöll og hita sér ketil kaffi í einhverju gömlu seli og steikja pylslur, það er toppurinn á tilverunni sagði heimamaður við mig í einni gönguferðinni. Það er líka athhglisvert hvernig Norðmenn flétta náttúruskoðun og útivist inn skólastarfið í grunnskólum. Hvernig börnin læra að spjara sig í náttúrunni og njóta hennar. Þau læra ratvísi, að tálga spýtur, smíða brú og kofa, kveikja eld, veiða fisk og flaka hann. Ég verð að segja alveg einsog er að mér finnst Norðmenn bera meiri virðingu fyrir landinu og náttúrunni en Íslendingar gera.

Í þessu efni eiga Íslendingar að taka sér Norðmenn til fyrirmyndar. Landið okkar er einstakt land í heiminum, við eigum að kenna börnum okkar að njóta þess að búa í þessu landi. Það er komin tími til að umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og sveitastjórnir snúi bökum saman og þrói námsskrá í samvinnu við náttúrufræðinga, vistfræðinga, útivistarfólk, bændur og sjómenn. Námsskrá þar sem kennd eru undirstöðuatriði í útivist og náttúruskoðun. Þetta ætti að vera mjög auðvelt á Íslandi, návígi við náttúruna er mjög mikið og stofnaðir hafa verið þjóðgarðar þar sem þegar eru aðstæður fyrir kennslu í útivist og náttúruskoðun. Og ekki má gleyma hafinu í kringum landið með öllu sínu ótrúlega lífríki. Það má líka benda á að skólaárið er alltaf að lengjast og þess vegna er tilvalið að auka fjölbreytni í náminu.

Ég veit að það er þegar byrjað á þessu í smáum stíl en betur má ef duga skal, það er mjög mikið í húfi; virðing fyrir landinu og náttúrunni er hluti af sjálfsvirðingu okkar.

Ég ætla að sýna ykkur að lokum nokkrar myndir frá sumrinu þar sem ég tvinnaði saman náttúruskoðun og myndlist í samvinnu við Myndlistaskólan í Reykavík.

Hér er hugmyndin að njóta íslenskrar náttúru fótgangandi að sjálfsögðu, staldra við, teikna, mála og skrá niður hugleiðingar. Endurvekja þá gömlu hefð að skrifa hugleiðingar, ferðalýsingar og að teikna úti í náttúrunni. Og myndlistin er frábær leið til að skerpa skynjun okkar, það er einsog með svo margt annað, (tónverk, bókmenntir, góðan mat) það þarf að rækta náttúruskynjun til þess að hún megi þroskast og dafna.

Hér erum við í nánasta nágrenni Reykjavíkur Reykjanesinu; Smella hér til að skoða myndir . Reykjanesviti, Gunnuhverir. Á Þingvöllum gengum við Gjábakkastíg og hér er verið að mála á slóðum Jóhannesar Kjarval. – Eggjasuða á hverasvæðinu í Hveragerði ..og við gengum Grændal og svo var farið í fjallabað í heitum læk í Reykjadal.

Hér sjáum við yfir Hólmsárbotna; Smella hér til að skoða myndir. þetta var ferð sem farin var með foreldra og börn saman. Við gengum með tjöld og vistir á bakinu úr Skófluklif í Strútslaug sem er um 2ja tíma leiðangur. Slóum þar upp tjaldbúðum til 2ja nátta, fórum í gönguferðir, fjallabað og fleira.

En hvað er íslendingur?
hér búa nú tæplega 20 þúsund manns af erlendum uppruna.
Það væri áhugavert að gefa innflytjendum og börnum þeirra kost á að kynnast íslenskri náttúru. Slíkar ferðir auka samlögun og samkennd og efla tilfinningu fyrir landinu.

Vatnslitað undir beru lofti. Myndin er tekin í ferð sem farin var með foreldra og börn saman.

Birt:
15. október 2007
Tilvitnun:
Ósk Vilhjálmsdóttir „Náttúran og sjálfsmynd Íslendinga - Umhverfisþing“, Náttúran.is: 15. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/15/nttran-og-sjlfsmynd-slendinga-umhverfising/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. október 2007

Skilaboð: