„Grow me“ vinnur í hugmyndasamkeppni
„Nýjar leiðir í atvinnusköpun á umbrotatímum“ var yfrisögn kynningar samvinnuverkefnis nema úr Listaháskólanum og Háskólanum í Reykjavík í Þjóðleikhúskjallaranum í gær föstudag. Hugmyndin var að kynna hugmyndirnar fyrir dómnefnd Klaks nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins og fjárfestum eins og um raunverulega viðskiptahugmyndir væri að ræða. Auðvitað geta hugmyndirnar einnig þróast í að verða framleiðsluverkefni en framtíðin mun skera úr um það, alveg eins og með allar þær frábæru hugmyndir sem fæðast á þessu landi en svo fáar fá nokkurn möguleika á að verða að veruleika. Ástæðan er stórfelld og grafalvarleg vanrækslu stjórnvalda við aðra atvinnusköpun en þeirri sem tengist virkjunum, stóriðju og nógu stórkallalegum hugmyndum sem eiga að redda öllu á einfaldan hátt. Það hefur kostað þjóðina nóg og nú er tími til að minni hugmyndir en fleiri fái brautargengi og tilheyrandi stuðning. Með þá hæfileika sem búa með okkar listamönnum, hönnuðum og hugsuðum á Ísland bjarta framtíð.
Vinningshafi í kynningarmaraþoninu var hópur sem kynnti sjálfvökvandi blómapott fyrir lífrænar jurtir. Potturinn yrði framleiddur á vernduðum vinnustöðum en heimilið Bjarkarás var haft í huga við þróun hugmyndarinnar. Í pottinum á að rækta lífrænar kryddjurtir. Pottarnir eru kúlulaga og henta vel í eldhúsgluggann. Hugmyndin er að starfa með vernduðum vinnustöðum um allan heim að lokinni þróun og fyrsta markaðssvæðið Ísland væri orðið svo heillað af „Grow me“ pottunum að tilefni væri ti lað færa út kvíarnar.
Önnur verðlaun fékk verkefni sem snerist um að finna skemmtilegar framleiðsluhugmyndir fyrir fanga á Litla Hrauni en málmsmiða- og málmsuðuverkstæði eru þar fyrir hendi nú þegar. Hugmynd að borði og kollum, hefðbundnum borðum og kollum að öðru leiti en að einn fótur stendur lengra út, eða er öðruvísi en hinn á einhvern hátt, örlítið utangátta í þjóðfélaginu ef svo má að orðið komast. Engin stóll og ekkert borð yrði eins þar sem sköpunarkraftur hvers fanga fengi að njóta sín í fjórða fætinum.
Þessi vel heppnaða kynning átti vel heima á sviðinu í Þjóðleikhússkjallaranum og var feikilega skemmtileg og uppörvandi nú á síðustu og verstu tímum. Stefnumót hönnuða og viðskiptafræðinema mynda frábært tvíeiki sem lofa góðu fyrir framtíð íslenskrar nýsköpunar.
Myndin er tekin við kynningu Grow me hugmyndarinnar í Þjóðleikhússkjallaranum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Grow me“ vinnur í hugmyndasamkeppni “, Náttúran.is: 1. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/02/grow-me-vinnur-i-hugmyndasamkeppni/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2008