Elsta jólatré landsins skreytt með lyngi
Elsta jólatré landins var skreytt í dag og verður til sýnis á jólasýningu Hússins á Eyrarbakka eins og siður er fyrir.
Tréð var smíðað af Jóni Jónssyni bónda í Þverspyrnu Hrunamannahreppi um eða rétt eftir 1873. Tréð var smíðað fyrir Kamillu Briem prestfrú í Hruna. Dóttir hennar Elín húsfreyja Steindórsdóttir í Oddgeirshólum í Flóa átti það eftir hennar dag og gaf Byggðasafni Árnesinga árið 1956.
Tréð er grænmálað að lit og einn meter á hæð með 38 pílum sem stungið er í þar til gerð göt í tréstofninum. Sortulyngi, krækilyngi og beitillyngi (heimildum ber ekki saman) var stungið í þar tilgerð göt á pílunum og kerti sett á endana. Eins og segir á vef Byggðasafns Árnesinga þá hefur tré af slíkri stærð eingungis hentað efnaðri fjölskyldu sem bjó við rúm húsakynni, því í þá daga því gert var ráð fyrir að dansað væri kringum jóltréð. Almennt höfðu fjölskyldur því aðeins pláss fyrir lítil viðartré sem var tilt á stól eða kommóðu.
Ár hvert er tréð skreytt af Hildi Hákonardóttur sem fær jafnan hóp góðra kvenna til að njóta þess að skreyta tréð lyngi sem hún tínir daginn áður. Þegar gamla jólatréð hefur verið skreytt með lyngi þá fyrst er jólaandinn kominn í Húsið. Fjölmörg önnur jólatré eru til sýnis á jólasýningunni í Húsinu og sýna vel þá þróun sem varð á jólatrjáaeign Íslendinga í gegnum tíðina.
Ljósmynd: Hildur Hákonardóttir og vinkonur að skreyta spýtujólatréð frá Hruna með sortulyngi, krækilyngi og beitilyngi í dag. Guðrún Tryggvadótir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Elsta jólatré landsins skreytt með lyngi“, Náttúran.is: 29. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/29/elsta-jolatre-landsins-skreytt-med-lyngi/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.