Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi um Búrfellshraun á fyrsta Hrafnaþingi ársins 2011. Erindið hefst kl. 15:15 og lýkur um kl. 16:00.

Hraunasvæðin í Hafnarfirði og Garðabæ bera frá fornu fari ýmis nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun og Vífilsstaðhraun en ofar eru Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Síðar hafa þessi hraun verið nefnd einu nafni Búrfellshraun eftir gígnum sem þau runnu frá snemma á nútíma. Áþekkur hraunfláki er suður af Straumsvík og hefur hann hugsanlega hefur orðið til í sama gosi eða goshrinu en mestur hluti hans er nú horfinn undir yngri hraun. Búrfell liggur nyrst og austast í gos- og sprungurein sem kennd hefur verið við Krýsuvík og er hluti af rekbeltinu á Reykjanesskaga.

Allstórir ólivíndílar eru helsta einkenni Búrfellshrauns en þeir eru fremur sjaldséðir á Reykjanesskaga og koma einkum fyrir í eldri hraunum. Upptakasvæðið er afar sérstakt, einkum fyrir hrauntröðina Búrfellsgjá og ummerki eftir stórar hrauntjarnir norðan og vestan við Kaldársel.

Eftir að hraunið rann hefur sprungureinin rifnað og brotnað. Gígurinn er brotinn af misgengi og víða eru gapandi gjár og sprungur í hrauninu. Þetta sama sprungukerfi er grundvöllur allra vatnsbóla á höfuðborgassvæðinu sem þannig gætu verið viðkvæm fyrir umbrotum í Krýsuvík.

Stefnt er að því að senda erindið út sem fjarfund á slóðinni http://get.netviewer.thekking.is/home/men260568nv64 (keyra þarf upp forritsbútinn netviewer, ATH bara fyrir Windows).

Kort: Guðmundur Kjartansson af hraununum næst Hafnarfirði. Kortið birtist í jólablaði Þjóðviljans, 24. desember 1954.

Birt:
25. janúar 2011
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Búrfellshraun, hraunið við Urriðaholt“, Náttúran.is: 25. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/25/burfellshraun-hraunid-vid-urridaholt/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: