Álfagarðurinn opnar í dag, á Jónsmessu, í Hellisgerði í Hafnarfirði.

Opnunin mun hefjast kl: 18:00 við gosbrunninn í Hellisgerði með stuttri kynningu á sumarhátíð álfa sem þeir kalla Hátíð Lífsins.
Síðan verður opnuð myndlistasýning fimm listamanna sem tengjast Hellisgerði sterkum böndum. Tvö þeirra eru afkomendur síðasta íbúa Oddrúnarbæjar í Hellisgerði, Oddrúnar Oddsdóttur sem húsið heitir eftir. Kristbergur Pétursson myndlistamaður sýnir málverk og málaðar flöskur og Oddrún Pétursdóttir myndlistamaður sýnir málverk með blandaðri tækni. Saman sýna þau einnig ljósmyndir frá tíma ömmu þeirra í Oddrúnarbæ.

Þóra Breiðfjörð keramiklistakona sýnir huldufólkskaffibolla, álfatebolla og álfasteina sem geyma innri leyndardóma. Guðrún Bjarnadóttir gullsmiður sýnir álfaskartgripi, hálsmen, hringa og armband. Ragnhildur Jónsdóttir sýnir saumamálverk og myndir úr álfabók sem er í prentun. Sýningin mun standa yfir helgina 24. -26. júní.

Í tilefni þess að þann 24. Júní er afmælisdagur Hellisgerðis sem fagnar 88 ára afmæli sínu verður hafin undirskrifasöfnun fyrir stofnun Hollvinafélags Hellisgerðis, opið öllum sem vilja vinna að vexti og viðgangi Hellisgerðis í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Hellisgerði er einstakur skrúðgarður með frábæru úrvali af trjám og plöntum og hraunmyndunum sem sýna vel hið fallega bæjarstæði Hafnarfjarðar. Fyrir utan að vera stórmerkileg og fjölbreytt byggð álfa, huldufólks og dverga ásamt fjölda annarra vera ..

Álfagarðurinn hefur aðsetur í Oddrúnarbæ og verður opið í allt sumar frá kl. 12:00 - 16:00
Þar verða listaverkin til sölu áfram, ásamt ýmsu handverki og "nesti". Nestið er huldufólkskaffi, álfate og dvergadjús ásamt hollustubitum og hægt að fá lánað teppi til að nota í garðinum, fá lesið í Álfaspáspil og steina og panta álfagöngur í fylgd Ragnhildar Jónsdóttur myndlistarmanns og sjáanda, um Hellisgerði og heilsa upp á ýmsa álfa og aðra íbúa garðsins.

Ljósmynd: Sóltré í Hellisgerði, Ragnhildur Jónsdóttir.

Birt:
24. júní 2011
Uppruni:
Álfagarðurinn
Tilvitnun:
Ragnhildur Jónsdóttir „Jónsmessa - Álfagarðurinn opnar í dag“, Náttúran.is: 24. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/24/jonsmessa-alfagardurinn-opnar-i-dag/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: