Þú ert að skila málmum í endurvinnslu
SORPA er byrjuð að flokka málma úr blönduðu heimilissorpi.
Þegar þú setur niðursuðudósina, álpappírinn, og brotnu teskeiðina í ruslatunnuna ertu í raun að skila þessum málmum til endurvinnslu. Í vetur var settur upp vélbúnaður í móttökustöð SORPU í Gufunesi sem flokkar með sjálfvirkum hætti málma frá almennu heimilissorpi. Með þessu móti er ekki þörf á sérstakri flokkunaraðstöðu á heimilum fyrir smáa málmhluti og minna þarf að fara með á gámavöllinn.
Málmar eru um 3% af heimilissorpi á hverjum tíma og því mjög jákvætt að ná þessum verðmætum úr sorpinu með lítilli fyrirhöfn og kostnaði. SORPA flokkar málmana enn frekar í framhaldinu, þannig er t.d. járn, ál og kopar aðgreint sem tryggir betra verð fyrir vikið. Flestir málmarnir eru endurunnir í málmbræðslum á Bretlandi og Spáni. Eftir bræðslu eru málmarnir markaðsvara og notkunarmöguleikar óendanlegir, kannski í gítarstreng eða frambretti á bíl.
Það auðveldar vélræna flokkun þegar málmhlutir eru settir lausir í tunnuna. Ekki setja niðursuðudósirnar í plastpoka áður en þær fara í tunnuna, eins er gott að hnoða álpappír í kúlu áður en hann fer í tunnuna. Vinsamlega skolið megnið af matarleifum úr niðursuðudósum áður en þeim er hent.
Þar sem allur heimilisúrgangur af Suðurlandi fer til SORPU má segja að nú sé allur málmur frá heimilum flokkaður til endurvinnslu.
Af hverju að endurvinna málma?
Við endurvinnslu á áli sparast 95% þeirrar orku sem annars þyrfti til að vinna ál úr hefðbundnum hráefnum (báxíti). Ál má endurvinna óendanlega oft. Það sama á við um aðra mála en þá má endurvinna mörgum sinnum og orkusparnaður er gífurlegur við endurheimt þeirra.
Grafík: Fenúrmerkin fyrir Endurvinnanlegt og Málma.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Tryggvi Ólafsson „Þú ert að skila málmum í endurvinnslu“, Náttúran.is: 30. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/30/thu-ert-ad-skila-malmum-i-endurvinnslu/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.