Einnota hnífapör geta verið umhverfisvæn
Einnota gafflar, hnífar, skeiðar, diskar, glös og bollar eru ákaflega óumhverfisvæn fyrirbæri. Notkun þeirra fer þó ört vaxtandi og nú er svo komið að varla er hægt að kaupa sér skyr eða jógúrt án þess að þessar hvimleiðu litlu samanbrjótanlegu skeiðar fylgi með. Í raun er þetta komið út í algerar öfgar og ekki er umræðan áberandi um umhverfislega neikvæð áhrif þeirra. Plastmagnið í einum gaffli eða einni skeið er alls ekki svo lítil og varla duga þúsund ár til að þau brotni niður í náttúrunni.
Þau enda sem mulningur sem brotnar sífellt meira niður en hverfur ekki alveg. Svokölluð hafmeyjartár eru plastagnirnar í hafinu nefndar. Sjá grein um hafmeyjartár.
Það er í flestum tilfellum algerlega ónauðsynlegt að nota einnota borðbúnað þó að hann eigi vissulega rétt á sér í vissum tilfellum. Hnífapör úr viði eða bambus eru einnig fáanleg og eru ekki einungis umhverfisvænni heldur líta þau mjög vel út og passa mun betur við lifandi mat enda úr lifandi efni. Sjá dæmi um hnífapör úr viði á vefnum ripplecups.com.
Pappabollar eru í flestum tilvikum ekki endurvinnanlegir og lenda því í venjulegu rusli til urðunar. Ástæðan er sú að þeir eru ekki úr hreinum pappa heldur eru húðaðir polyethelene plasti svo þeir leki ekki. Sjá grein um vandamálin sem skapast af gífurlegu magni af pappabollum í heiminum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Einnota hnífapör geta verið umhverfisvæn“, Náttúran.is: 16. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2008/03/13/einnota-gafflar-geta-verio-umhverfisvaenir/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. mars 2008
breytt: 16. mars 2011