Fullt út úr dyrum á stofnfundi Samtaka lífrænna neytenda í Norræna húsinu í gærkveldi
Vel á annað hundrað manns sóttu stofnfund nýrra samtaka Samtaka lífrænna neytenda í Norræna húsinu í gærkveldi. Undibúningur að stofnun samtakanna hefur staðið yfir í nokkra mánuði en mikill áhugi vaknaði á stofnun formlegra samtaka eftir að óformleg samtök lífrænna neytenda fengu frábærar undirtektir á Facebook.
Oddný Anna Björnsdóttir, hvatamaður að stofnun samtakanna flutti inngangsorð þar sem hún gerði grein fyrir ástæðum þess að samtök af þessu tagi væru nauðsynleg og lýsti markmiðum samtakanna sem eru að; efla miðlun upplýsingar um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra,
hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða, vekja athygli á nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða og stuðla að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu hjá LBHÍ, var kjörin fundarstjóri og Guðrún Tryggvadóttir, framkvæmdastjóra Náttúrunnar.is, var kjörin ritari.
Vottunarstofan Tún færði stofnfundinum að gjöf sérprentun á yfirlitsriti Söndru B. Jónsdóttur um niðurstöður nokkurra helstu rannsókna sem gerðar hafa verið á lífrænum aðferðum á undanförnum árum. Fundarmenn voru hvattir til að ná sér í eintak og afla sér gleggri upplýsinga um þau fjölþættu gæði sem felast í lífrænum aðferðum.
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafði fyrr um daginn óskað eftir að fá að ávarpa fundinn og í máli sínu sagði hún frá því að ráðherra hafi um langa hríð verið mikill áhugamaður um lífræna ræktun og óskaði hún fundarmönnum, fyrir hönd ráðherra, til hamingju með stofnun samtakanna og óskaði góðs þeim gengis í framtíðinni.
Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, flutti síðan erindi um „Mat og heilsu í iðnvæddum heimi“. Kristín Vala benti á að sjálfbærni fæli í sér skilvirkni og leikni í kerfi sem getur gengið áfram „endalaust“. Nýting í 2-300 ár er ekki sjálfbær nýting. Hún er aðeins sjálfbær ef hún er endalaus. Lífríkið í jarðveginum eyðileggst í hefðbundnum landbúnaði. Lífræn ræktun og framleiðsluaðferðir eru það eina sem getur snúið þessari þróun við.
Oddný Anna kynnti, fyrir hönd undrirbúningshópsins*, form samtakanna og lagt var til að samtökin yrðu ekki stofnuð sem formlegt félag eða samtök með stjórn og tilheyrandi píramídakerfi heldur yrði um „hreyfingu“ að ræða, hreyfingu sem væri lífræn, gagnsæ og lýðræðisleg og gæfi þannig öllum tækifæri á að hafa áhrif og taka virkan þátt. Tilllagan var samþykkt með lófataki.
Fundarmönnum gafst síðan kostur á að skrá sig í í starfshópa og kynna sér, prófa og smakka lífræna framleiðslu og fá upplýsingar um lífrænar landbúnað og framleiðsluaðferðir í fordyri Norræna hússins þar sem sett hafði verið upp kynningarmiðstöð og kynningarstandar hinna ýmsu bænda, framleiðenda og innflytjenda.
Geysigóð þátttaka var í starfshópana þar sem yfir hundrað skráningar voru í tíu hópa. Starfshóparnir munu taka strax til starfa og þeir sem skráðu sig í framkvæmdanefnd munu halda utan um hópavinnuna og gera tillögur að sameiginlegum verkefnum hreyfingarinnar. Á nýrri heimasíðu Samtaka lífrænna neytenda www.lifraen.is mun innan tíðar vera hægt að fá nánari upplýsingar og skrá sig í hreyfinguna, framkvæmdanefnd og starfshópa sem verða í sífelldri endurnýjun, þannig að „allir“ geti verið með.
Að lokum var lögð fram tillaga að fyrstu stuðningsyfirlýsingu samtakanna en hún er við tvær þingsálykturnartillögur sem nú liggja fyrir Alþingi: Þingsályktunartillaga um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði (þingskjal nr. 371) og þingsályktunartillaga um útiræktun erfðabreyttra lífvera (þingskjal nr. 737).
Yfirlýsingin var samþykkt og er svohljóðandi:
Samtök lífrænna neytenda stofnuð í Norræna húsinu 7. mars 2011 senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu til yfirstandandi Búnaðarþings, Alþingis, fagaðila og annarra er vilja láta sér málið varða:
Á Alþingi liggja fyrir tvær þingsályktunartillögur, önnur um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði (þingskjal nr. 371) og hin um útiræktun erfðabreyttra lífvera (þingskjal nr. 737). Engin stefna er við lýði á Íslandi í dag varðandi þessi tvö málefni sem eru brýn neytendamál, þar sem þær miða að því að tryggja matvælaöryggi með umhverfisvernd að leiðarljósi. Ísland er mikill eftirbátur meginlands Evrópu í lífrænni ræktun og framleiðslu lífrænt vottaðra afurða. Innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn, enda er einungis 1% af ræktuðu landi á Íslandi í vottaðri lífrænni ræktun en Evrópusambandið setur markmiðið á 20% árið 2020 en er nú í kringum 5%. Sömuleiðis hafa mörg lönd og enn fleiri héruð í Evrópu lagt bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum.
Stofnfundur Samtaka lífrænna neytenda lýsir yfir fullum stuðningi við þessar þingsályktunartillögur, þakkar og hvetur flutningsmenn þeirra til að halda málunum til streitu. Samtökin vilja auk þess hvetja til samvinnu allra hlutaðeigandi til að skapa þá umgjörð um lífrænan landbúnað að hann geti vaxið í takt við þá þróun sem nú er að eiga sér stað í löndunum í kringum okkur og lýsir eftir samhentu átaki stjórnvalda, stofnana og fagaðila til að svo megi verða.
* Í undirbúningshóp voru:
- Björg Stefánsdóttir: Náttúrulækningafélag Íslands
- Dominique Plédel Jónsson og Eygló Björk Ólafssdóttir: Slow Food Reykjavík
- Guðmundur R. Guðmundsson: Frumkvöðull
- Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir: Landbúnaðarháskólanum
- Gunnar Á Gunnarsson og Guðrún Hallgrímsdóttir: Vottunarstofan Tún
- Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur: Náttúran.is
- Oddný Anna Björnsdóttir, Lifandi ehf.
- Ólafur Dýrmundsson: Bændasamtökunum
- Sirrý Svöludóttir: Yggdrasill og lífrænn bloggari
Ljósmyndir: Frá stofnfundi Samtaka lífrænna neytenda, Ari Hultqvist.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fullt út úr dyrum á stofnfundi Samtaka lífrænna neytenda í Norræna húsinu í gærkveldi“, Náttúran.is: March 8, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/08/fullt-ut-ur-dyrum-stofnfundi-samtaka-lifraenna-ney/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: March 13, 2011