Grænmeti á Náttúrumarkaði
Ferskt lífrænt grænmeti er án efa besta grænmeti sem hægt er að fá. Ekki er verra ef það er íslenskt. Lífrænt grænmeti er ræktað á þann hátt sem styður við vistkerfi og viðheldur heilbrigði jarðarinnar. Grænmeti er einnig ein aðaluppistaðan í mörgum unnum matvörum og því tilefni til að lesa vandlega á umbúðirnar. Hér í deildinni eru nákvæmar upplýsingar um innihald og vottanir hverrar vöru. Lífrænt grænmeti hefur örugglega ekki verið þvegið upp úr eiturefnum, ekki hafa verið notuð fyrirbyggjandi lyf og varnarefni og einungis er notaður lífrænn áburður í lífræni ræktun. Auk þess eru umhverfisáhrif slíkrar framleiðslu mun jákvæðari í alla staði. Því má treysta ef að framleiðslan er vottuð af viðurkenndum vottunaraðila. Innan Evrópusambandsins er reglugerð sem skilgreinir lífrænt ræktuð matvæli og er bannað að auglýsa matvörur sem lífrænt ræktaðar nema þær uppfylli viðkomandi reglugerð. Vottunarstofan Tún á Íslandi er meðlimur í IFOAM alþjóðasamtökum sem votta lífrænt ræktuð matvæli. Munurinn á vistvænni og lífrænni ræktun grænmetis er sá að í lífrænni ræktun er ekki leyfilegt að nota tilbúinn áburð eða hefðbundin eiturefni á meðan vistvæn ræktun er í raun venjulegur búskapur og leyfilegt er að nota ofantalin efni en í hófi þó. Vistvænn búskapur er gæðastýrður hefðbundinn búskapur. Gæðaeftirlit, vottun og vörurmerki er á höndum búnaðarsambanda.
Matvælastofnun er ábyrg fyrir eftirliti með grænmeti sem selt eru hér á landi.
Grafík: Tákn grænmetisdeildar Náttúrumarkaðarins, hönnun: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran er ehf.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Grænmeti á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 17. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2007/10/25/grnmeti-nttrumarkainum/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. október 2007
breytt: 28. mars 2014