Icelandair Hotels vinna nú að innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis fyrir tvö af hótelum sínum, Hótel Loftleiði og Hilton Reykjavík Nordica. Stefnt er að því að innleiðingarferli ISO 14001 stuðulsins verði lokið fyrir byrjun sumars 2011. ISO 14001 er staðall Alþjóðlegu Staðlasamtakanna fyrir umhverfisstjórnunarkerfi og nær hann yfir stefnumótun, markmiðssetningu, framkvæmd og eftirlit allra umhverfisþátta sem fyrirtækið getur stýrt eða haft áhrif á.

Ný og ítarleg umhverfisstefna Icelandair Hotels er í vinnslu en þar munu meðal annars koma fram markmið fyrirtækisins í umhverfismálum og áætlun um sífelldar úrbætur svo hægt sé að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Með því að sækjast eftir umhverfisvottun vilja Icelandair Hotels vera fyrirmynd annarra fyrirtækja og sýna gott fordæmi í umhverfismálum.

Þessa dagana er verið að taka eitt fyrsta skrefið í átt að skilvirku umhverfisstjórnunarkerfi en starfsmaður frá Íslenska Gámafélaginu hefur nú þegar haldið tvö námskeið fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins varðandi meðhöndlun sorps og er áætlað að halda annað námskeið í dag, fimmtudag. Er það markmið Icelandair Hotels að koma upp áhrifaríku flokkunarkerfi og takmarka þann úrgang sem frá fyrirtækinu kemur.

Birt:
24. mars 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hekla Ösp Ólafsdóttir „Tvö Icelandair Hotel vinna að innleiðingu ISO 14001“, Náttúran.is: 24. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/24/icelandair-hotels-vinna-ad-innleidingu-iso-14001/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: