Sýning um byggingarvistfræði í Sesseljuhúsi
Byggingarvistfræðin felur í sér marga samofna þætti sem allir þurfa að vera í jafnvægi og spila saman. Sýningin er sett upp í kringum tré, listilega útskorið. Á jörðinni, við rætur trésins er skilti með áletruninni „Móðir jörð sem líður fyrir umhverfisspjöll okkar“. Bolurinn ber síðan áletrun meginflokkanna fjögurra og greinarnar nöfn undirflokkanna. Flokkarnir skiptast þannig: Hringrás: rafmagn, upphitun og kæling, fráveita, gróður. Heilsa: efnisval, lagnir og kerfi, framkvæmd, hönnun. Staðsetning: aðlögun að náttúrunni, hús sem fyrir eru, samfélagsgerð, fólkið. Varðveisla: upphitun, rafmagnsnotkun, vatn, sorp. Hugtökin sjálfbær þróun, vist-tæknifræði og mannvistfræði hafa líka sinn stað á trjábolnum enda grunnur að þeirri hugmyndafræði sem sjálfbærar byggingar grundvallast á. Til skýringar áletrununum á trénu eru síðan 4 veggtöflur þar sem viðmiðin eru útskýrð í stuttum og hnitmiðuðum textum og útskýringamyndum.
Sýningin varpar ljósi á hvaða atriði skapa heilbrigð og vistvæn húsakynni, sem er nokkuð sem við íslendingar höfum látið dragast að kynna okkur nægjanlega vel og nýta okkur við húsbyggingar okkar.
Myndin er af Bergþóru að útskýra áhrif þau sem „sjúk hús“ geta haft á heilsu manna en eitt af takmörkum vistvæna byggingarmátans er að taka tillit til allra þeirra þátta er geta haft skaðleg áhrif á heilsu manna og haga byggingaraðferðum í samræmi við það sem hefur betri áhrif á heilsu okkar og vellíðan en annað.
Sýningin að Sólheimum er opin alla daga frá kl. 10:00 - 18:00 og er aðgangur ókeypis.
Sýningin stendur til 7. ágúst.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sýning um byggingarvistfræði í Sesseljuhúsi“, Náttúran.is: 5. júlí 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/syn_sesselju/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 16. maí 2007