Auðlind - Náttúrusjóður kynntur til leiks
Í dag var Auðlind - Náttúrusjóður kynntur við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands. Fjöldi manns var viðstaddur kynninguna og andi náttúruverndar og bjartsýni ríkti í salnum þegar að þau Andri Snær Magnason, Þórunn Sveinbjarnardóttir, frú Vigdís Finnbogadóttir og Guðmundur Páll Ólafsson fluttu erindi um gildi auðlindarinnar „náttúru“, hver með sínum áherslum og lagi. Í stuttu máli er hlutverk sjóðsins að stuðla að verndun lands- og vatnsgæða á Íslandi.
Svo segir m.a. á vef sjóðsins audlind.org: Náttúra Íslands er þjóðararfur, sameign núlifandi og komandi kynslóða. Náttúrusjóðurinn Auðlind er stofnaður til að standa vörð um auðlindir, lífsgæði og fjölbreytni íslenskrar náttúru og er sameign íslensku þjóðarinnar. Honum er ætlað að stuðla að verndun og efla virðingu fyrir þeim fágæta þjóðararfi sem náttúra Íslands er.
Náttúrusjóðurinn Auðlind byggir starfsemi sína á framlögum og frumkvæði einstaklinga og fjárhagslegum stuðningi fyrirtækja og ríkis. Hann er fjárhagslegur varnargarður fyrir náttúru og þjóðararf Íslendinga. Með öflugri AUÐLIND er unnt að styðja metnaðarfull áform til margvíslegra verkefna á vegum einstaklinga, félagasamtaka og jafnvel sveitafélaga sem miða að því að endurheimta og varðveita gæði íslenskrar náttúru.
Leiðarljós: Hvorki landi eða vatni verði spillt með mengandi eða eyðandi starfsemi.
Meginstefna: Stuðla að verndun og viðgangi land- og vatnsgæða á Íslandi.
Gildi: Traust - Ábyrgð - Umhyggja - Tillit
ASSA Auðlindar
ASSA er áhersluverkefni AUÐLINDAR og í hennar umsjón. ASSA hefur það hlutverk að vernda íslenska haförninn og varpstöðvar hans. ASSA á jafnframt að hvetja til bættrar umgengni við villta náttúru landsins og eðlilegrar nýtingar náttúrugæða.
ASSA Auðlindar verðlaunar eigendur/ábúendur jarða þar sem haförn verpir og kemur upp ungum. Verðlaunin eru hvatning og þakkir fyrir góða sambúð við náttúru landsins. Ennfremur getur sjóðurinn styrkt þá einstaklinga sem sannanlega hafa orðið fyrir búsifjum af völdum arna.
Til þess að ná markmiðum sínum getur sjóðurinn lagt verkefnum lið sem stuðla að menntun og skilningi fólks á heilbrigðum vistkerfum og mikilvægi ránfugla í þeim.
VOTLÖND Auðlindar
VOTLÖND eru áhersluverkefni í samræmi við skipulagsskrá Auðlindar þar sem lögð er áhersla á verndun vatnafars landsins á öræfum sem í byggð. Verkefnið VOTLÖND snýst um að efla votlendi Íslands og styrkja gæði og þjónustu sem votlendi veita svo sem bindingu kolefnis, miðlun vatns, hringrás næringarefna og þar með að vernda fjölbreytni lands og lífríkis. VOTLÖND Auðlindar styrkja félagasamtök og/eða einstaklinga til verkefna er tengjast vernd og endurheimt votlendis. Einnig geta VOTLÖND stofnað til eigin verkefna um endurheimt votlendis og fuglaverndar og veitt ráðgjöf á sviði votlendisverndar og endurheimtar í samvinnu við fræðastofnanir.
Þá styðja VOTLÖND fræðslu og vitundarvakningu um mikilvægi votlendis í náttúru Íslands og á heimsvísu.
Myndir frá kynningu Auðlindar. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Auðlind - Náttúrusjóður kynntur til leiks“, Náttúran.is: 20. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/20/auolind-natturusjoour-kynntur-til-leiks/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. desember 2008