Göngum lengra og hjólum meira er Grænt skref í Reykjavík sem Gísli Marteinn Baldursson ný r formaður umhverfis- og samgönguráðs ætlar að vinna að á þessu ári. „Ég er sannfærður að hægt verði að margfalda þann fjölda í Reykjavík sem fer daglega leiðar sinnar gangandi, hjólandi eða í strætó,“ segir hann.

„Ég er mjög ánægður að geta tekið við ráðinu aftur enda vorum við í miðjum kliðum. Spennandi skipulag og framkvæmdir voru framundan þegar meirihlutaskipti urðu í borginni í október,“ segir Gísli Marteinn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og segist hlakka til að vinna á ný með starfsfólki Umhverfis- og samgöngusviðs.

„Við munum taka til óspilltra málanna þar sem frá var horfið og hefjast handa við mörg verkefni í tengslum við Grænu skrefin í Reykjavík,“ segir Gísli. „Almenningssamgöngur voru í öndvegi hjá okkur á liðnu ári, við bættum þjónustuna og gáfum námsmönnum frítt í strætó. Hjólreiðar verða í brennidepli á þessu ári. “ .

Umhverfisráð heitir nú umhverfis- og samgönguráð og segir Gísli að ráðsins bíði það mikilvæga verkefni að samþætta samgöngur í borginni. „Við viljum ekki að tiltekinn samgöngumáti útiloki aðra. Heldur viljum við þjóna fólki til að komast greiðlega og örugglega til og frá vinnu eða skóla óháð ferðavenjum,“ segir Gísli. „Þetta verður vandasamt verkefni en ögrandi því við viljum skapa raunhæfa valkosti til mótvægis við bílinn. Fjölbreyttar ferðavenjur í borginni eru ávinnur fyrir alla hópa, líka þá sem þurfa að nota bílinn. Borg sem veðjar einungis á einn samgöngumáta lendir fyrr eða síðar í vanda. “Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar.
Birt:
Jan. 25, 2008
Tilvitnun:
Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur „Betri samgöngur fyrir hjólandi“, Náttúran.is: Jan. 25, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/25/betri-samgongur-fyrir-hjolandi/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: