Sigríður Ævarsdóttir, dóttir Ævars Jóhannessonar og konu hans Kristbjargar Þórarinsdóttur, hóf nýlega framleiðslu og markaðssetningu á Lúpínuseyði Ævars eftir uppskrift frá föður sínum sem sauð lúpínuseyði um árabil fyrir sjúklinga sem leituðu til hans í von um bata. Ævar hætti að sjóða lúpínuseyði fyrir þremur árum síðan og söknuðu þá margir drykkjarins göruga sem hjálpað hafði svo mörgum. Það er því mikið ánægjuefni að dóttir þeirra hafi nú fundið leið til að koma seyðinu, í þurrkuðu formi, til þeirra sem þess óska.

Auk þess að safna jurtunum, sjá um þurrkun, mölun, geymslu og pökkun, hefur Sigríður einnig hannað umbúðir og komið  vörunni á markað. Lúpínuseyði Ævars er fyrsta varan sem Sigríður setur á markað undir formerkjum lúpínunnar, en í faravatninu er þróun á fleiri vörum.

Sigríður er menntaður hómópati frá  College of Practical Homoeopathy frá London og hefur einnig lokið námi í hómópatíu fyrir hesta frá Institut Kappel Wüppertal í Þýskalandi. Hún hefur skrifað fjölda greina um ýmis heilsutengd málefni í tímaritið Heilsuhringinn auk þess að hafa verið virkur þátttakandi í starfssemi þess félagsskapar, bæði sem formaður og  með þátttöku í ritnefnd.

Sjá greinar bæði eftir Sigríði og föður hennar á vefnum Heilsuhringurinn.is.

Birt:
16. maí 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lúpínuseyði Ævars“, Náttúran.is: 16. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/16/lupinuseydi-aevars/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: