Kjöraðstaða til að geyma ferskvörur er í ísskápnum við 0-4 °C. Kælingin eykur geymsluþol ferskafurða um nokkra daga upp í nokkrar vikur allt eftir fæðuflokkum. Kæling stöðvar ekki örveruvöxt né ensímvirkni en hægir á þeim tímabundið. Á kælivörum er geymsluþol annað hvort sýnt með dagsetningu (best fyrir) eða sagt hve lengi varan er fersk eftir opnun umbúða.

Skilda er að setja framleiðsludagsetningu skýrt fram á umbúðum. Það er gert á ýmsa vegu t.d. með rauf eða gati í dagatali á miðanum, dagsetningu undir vörunni eða á verðmiðanum, loki eða á annan sýnilegan hátt. Það ætti því að vera auðvelt að fylgjast með því hvort að ráðlagt sé að neyta vörunnar eða ekki þó að stundum sé erfitt að muna hvenær umbúðirnar voru opnaðar. Sóun matvæla er gríðarlegt vandamál en talað er um að um 50% af mat í heiminum sé hent. Bent skal á í því sambandi að „síðasti söludagur“ þýðir ekki að henda skuli matnum. Egg geta t.d. geymst í fjölda mánaða, hunang í nokkrar aldir, niðursuðuvörur í nokkur ár, ostur í nokkrar vikur eða mánuði og mjólk í nokkra daga. 

Ein leið til að muna hvenær umbúðir voru opnaðar er að skrifa dagsetninguna beint á umbúðirnar. Þegar matur er skemmdur fer það reyndar oftast ekki milli mála því oftast er það sýnilegt en ef ekki þá tekur lyktar- og bragðskyn okkar við. Við erum mjög næm fyrir því hvenær matur er orðinn ónýtur og hvenær ekki. Best er þó að láta heilsuna njóta vafans leiki nokkur vafi á ferskleika vörunnar.

  • Sumar vörur eins og kaffi geymist ágætlega í lokuðum umbúðum án kælingar en helst samt enn ferskari í kæli.
  • Geyma skal kjöt og fisk neðst í kæliskápnum. Þar er kaldast.
  • Ávexti og grænmeti má setja efst í ísskápinn en suma ávexti t.d. banana og epli er ekki betra að geyma í kæli.
  • Kartöflur og lauk er alls ekki ráðlagt að geyma í kæli heldur á dimmum stað.
  • Munið að opna ísskápinn í stuttan tíma í einu til að missa ekki kuldann út. Þannig helst hitastigið jafnast sem lengir líftíma matarins.
  • Hreinlæti er mjög mikilvægt sérstaklega eftir að umbúðir hafa verið opnaðar.
  • Lokaðu umbúðunum tryggilega svo að bakteríur eigi ekki greiðan aðgang að matnum þínum.
  • Hafðu í huga að þú sólundar auðæfum þínum og jarðarinnar með því að kaupa svo mikinn mat að hluti hans þurfi að enda í ruslinu.

Sjá nánar um sóun matvæla og hvað við getum gert.

Birt:
11. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ Kælivara“, Náttúran.is: 11. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/22/klivara/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. júní 2007
breytt: 11. ágúst 2014

Skilaboð: