Á undanförnum dögum hefur hver fréttin af annarri dunið á varðandi leyfisvæntingar, orku og flutningsleiðir fyrir áformað álver í Helguvík. Yfirlýsingar um að framkvæmdir væru í þann mund að skella á hafa verið gagnrýndar og rök færð fyrir því að alls ekki sé allt klárt í því sambandi. Vegur þar hvað þyngst að Landvernd kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti að meta umhverfisáhrif af framkvæmdum í einu lagi og hefur farið fram á að heildarmat verði gert á áætluðum framkvæmdum.

Fari svo að umhverfisráðuneytið fallist á kæru Landverndar um heildarmat gæti það sett strik í reikninginn. Aðstandendur síðunnar www.hengill.nu, sem sett var upp til að bjargar Ölkelduhálsi og nágrenni, hafa sent frá sér áskorun þar sem skorað er á umhverfisráðherra að sjá til þess að framkvæmt verði heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og allar tengdar framkvæmdir að Bitruvirkjun meðtaldri. Er vísað í kæru Landverndar þar að lútandi og hún þannig ítrekuð.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar segir í viðtali við 24 stundir í dag að það vanti 60% orkunnar og forsendur varðandi orku til álvers í Helguvík standist því ekki. Forsendurnar sem Norðurál gaf sér varðandi orkuöflun og orkuflutninga fyrir álverið í Helguvík standast engan veginn að mati Bergs. Bergur segir ennfremur að Hitaveita Suðurnesja oog Orkuveita Reykjavíkur hafi gert samning við Norðurál um að útvega hluta af orkunni sem álverið þarf.

Af þeim 435 megavöttum sem gert er ráð fyrir í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif álversins sé aðeins hægt að tryggja 100-150 megavött ef sveitarfélögin eiga ekki að gera skipulagsbreytingar sem mörg eru á móti. Hitaveita Suðurnesja geri m.a. ráð fyrir orku frá Krþsuvík. Virkjanasvæðin þar eru í landi Suðurlinda sem eru í eigu Hafnarfjarðar, Grindavíkur og Voga. Bæjarstjórarnir þrír hafa skrifað undir viljayfirlýsingu með það markmið í huga að standa vörð um náttúruauðlindir á svæðinu, þar með talinn nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig. Þar eru þá dottin út 100 megavött að mati Bergs. Frá Orkuveitu Reykjavíkur eiga að koma 175 megavött en aðeins hefur verið samið um 100. Landsvirkjun hefur ennfremur gefið út yfirlýsingu um að hún selji ekki orku til nýrra álvera á SV-horninu og stendur án efa við þær yfirlýsingar sínar.

Þar sem jarðstrengur yrði of dýr og aðliggjandi sveitarfélög vilja ekki sjá frekari raflínur er ljóst að flutningsleiðir eru í algeru uppnámi. Þrátt fyrir allt þetta koma yfirlýsingar frá framkvæmdaaðilum og bæjarstjóra Reykjanessbæjar æ ofan í æ um að allt sé að skella á en það verður að teljast einstaklega furðulegt og byggt á bjartsýninni einni saman. Það er í raun virðingarvert að vera bjartsýnn en það er ekki skynsamlegt af Helguvíkurmönnum að hinkra ekki við með stóru yfirlýsingarnar þangað til málið hefur gengið í gegnum það feril sem lög gera ráð fyrir. Annað lyktar af gömlum tímum þar sem allt var keyrt í gegn með þeirri vissu að réttir menn væru á réttum stöðum til að toga í rétta spotta á réttum tíma, jafnvel fyrir rangar ákvarðanir.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
22. febrúar 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Álver í Helguvík út úr kortinu?“, Náttúran.is: 22. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/22/alver-i-helguvik-ut-ur-kortinu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: