Í gær voru fréttir um byggingarleyfi í fæðingu fyrir álver í Helguvík áberandi í fjölmiðlum. Fréttamiðlar virðast taka upp slíkar fréttir að algerlega órannsökuðu máli. Í raun þýðir byggingarleyfi alls ekki að álver sé í höfn í Helguvík eins og látið er líta út fyrir. Nú þegar að efnahagsástandið er eins og það er og annað fyllerí myndi kaffæra þjóðarbúið aðeins meira þegar framkvæmdatíma lýkur, halda nokkrir áhugamenn um álver í Helguvík áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hvorki er þörf fyrir þau störf sem flaggað er né hefur losunarkvóta til hugmyndaversins verið úthlutað. Háspennulínulagnir að verinu hafa verið útilokaðar af nærliggjandi sveitarfélögum og línur í jörð eru taldar of dýrar. Heilstætt umhverfismat hefur ekki verið gert fyrir þessa risastóru framkvæmd og einmitt það hefur Landvernd kært til umhverfisráðherra sem tók kæruna til efnislegrar meðferðar en hefur ekki úrkurðað í málinu (sjá frétt). Forsætiráðherra hefur gert fyrirvara um framkvæmdir (sjá frétt á vef Landverndar) en þær forsendur sem þar eru listaðar hafa ekki verið uppfylltar. Starfsleyfið sjálft er heldur ekki í höfn og því aðeins eitt að fá leyfi í dag og það að byrja byggingarframkvæmdir. Eiga stórframkvæmdir sem þessar að fara af stað í formi kapphlaups áður en öll kurl eru komin til grafar? Er ekki reglan sú að sá sem þjófstartar sé dæmdur úr leik?
Nú er kallað eftir hinu „fagra Íslandi“ Samfylkingarinnar!

Birt:
12. mars 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Helguvík þjófstartar“, Náttúran.is: 12. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/12/helguvik-thjofstartar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. mars 2008

Skilaboð: