Laugardaginn 5. mars verður opið hús hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá kl. 13 til 17 í nýjum heimkynnum stofnunarinnar í Urriðaholti í Garðabæ.

Í opna húsinu gefst almenningi kostur á að fræðast um störf náttúruvísindamanna stofnunarinnar og þeirri stórbættu aðstöðu sem þeir hafa fengið í nýja húsinu. Hægt verður að kynnast skordýrafræði, jarðfræði, steingervingafræði, frjómælingar, grasafræði, flokkunarfræði, fuglafræði og vistfræði, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Skýrt verður frá því hvernig náttúrugripir eru varðveittir og nokkrir slíkir verða til sýnis. Þar á meðal er geirfuglinn, sem keyptur var á uppboði í London fyrir nákvæmlega 40 árum með samskotum frá almenningi.

Sagt verður frá undirbúningi Náttúrufræðistofnunar að uppsetningu á beinagrind steypireyðar sem rak á land norður á Skaga síðastliðið sumar.

Yngsta kynslóðin fær ýmsan náttúrufróðleik við sitt hæfi, “gogga” til að föndra með, fuglagrímur og litabækur með skemmtilegum pöddum, fuglum og jurtum.

Ný heimkynni Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti eru við Urriðaholtsstræti 6-8. Sjá staðsetningu hér á Græna kortinu.

Birt:
3. mars 2011
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Opið hús hjá Náttúrufræðistofnun í Urriðaholti“, Náttúran.is: 3. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/03/opid-hus-hja-natturufraedistofnun-i-urridaholti/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: