Fjáröflun hjálparsveita á Íslandi byggist að stórum hluta á ágóða af sölu flugelda, ristaterta og annara áramótaleikfanga. Á undanförnum árum hafa vaknað spurningar um hvort að hjálparstarf og sala sprengiefnis eigi vel saman. Neikvæð umhverfisáhrif af sprengiefni eru óumdeilanleg og magnið sem sprengt er eykst ár frá ári. Talið er að hér á landi verði nú um áramótin skotið á loft þúsund tonnum af flugeldum.

Umhverfisráðherra ákvað í nóvember sl. að skipa starfshóp til að skoða möguleika á að koma á framleiðendábyrgð á prentpappír, t.d. pappír sem er notaður í dagblöð, tímarit, bækiinga og bækur. Sjá frétt á vef Umhverfisráðuneytisins.

Það er því ekki úr vegi að leggja til að slík ábyrgð falli einnig t.d. á söluaðila flugelda en þeir stunda innflutning og sölu á mengandi vöru sem að mestu leiti samanstendur af pappa auk auðvitað þungmálma og annarra umhverfisskaðlegra efna.

Ef að seljendur flugelda þyrftu að taka sömu ábyrgð og til stendur að láta innflytjendur og framleiðendur taka, gætu þeir t.d. tekið við og flokkað ruslið eftir áramótin. Flokkarnir yrðu eiturefni sem færu til Efnamóttökunnar með tilheyrandi förgunarkostnaði sem að þeir myndu að sjálfsögðu þurfa að standa undir, og til endurvinnslu í flokk bylgjupappa, slétts pappa, óendurvinnanlegs og spítnabraks*. Hugsanlega fengjust peningar frá endurvinnslustöðvunum fyrir þann pappa sem flokkast undir verðmæti. Þannig gæti umhverfissjónarmiða farið að gæta í markaðsáætlunum hjálparsveitanna í framtíðinni. Án ábyrgðar á mengunar- og endurvinnsluþættinum halda allir áfram að reikna ekki með umhverfisáhrifum starfsemi sinnar í fjárhagsútreikninga sína, sem gengur ekki upp því kostnaðurinn fellur alltaf á einhvern.

Áskorunin felst í því að hjálparsveitirnar taki frumkvæði og auglýsi að þær taki við raketturuslinu eftir áramót og sjái til þess að því sé komið til endurvinnslu og verði fargað á réttan hátt. Samvinna milli hjálparsveitanna og endurvinnslustöðva á landinu gæti þannig verið með besta móti og hjálparsveitirnar myndu standa með pálmann í höndunum sem ábyrg samtök sem huga að umhverfisvernd en stunda ekki fullkomnlega óábyrg viðskipti í umhverfislegu tilliti eins og nú er raunin.

Fordæmi er fyrir samvinnu endurvinnslustöðva og hjálparsveitanna en hluti af fjármögnun hjálparsveitanna felst einmitt í því að taka við og innheimta skilagjaldið af fernum (samsettum pappaumbúðum) og flöskum og dósum sem almenningur lætur rakna af hendi.

*Reyndar er staðreyndin sú að allt fer til urðunar en draumastaðan væri kannski önnur!

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. Merki: Fenúrmerki fyrir Spilliefni og Bylgjupappa.

Birt:
26. desember 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Áskorun til hjálparsveita á landinu öllu“, Náttúran.is: 26. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/26/askorun-til-hjalparsveita-landinu-ollu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. desember 2007

Skilaboð: