Umhverfisþing 2005 - Stefnumörkun um sjálfbæra þróun
Dagana 18. og 19. nóvember var haldið Umhverfisþing 2005 á Hótel Nordica.
Málefni þingsins voru „endurskoðun á stefnu um sjálfbæra þróun“. Umhverfisþing er haldið annað hvert ár skv. ákvæðum í 10.gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Umhverfisþingið í ár var helgað endurskoðun á stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun sem samþykkt var árið 2002 og gefin út í ritinu „Velferð til framtíðar, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi“. Stefnumörkun til 2020. Um þrjúhundruð manns sóttu þingið. Kynjahlutfall á þinginu var u.þ.b. 60% karlar og 40% konur. Áberandi lítill hluti þingsetumanna voru óbreyttir borgarar eða fulltrúar atvinnulífsins sem bendir til að annað hvort finnast þeim þeir ekki hafa neitt til málanna að leggja eða að þeim hefur ekki verið bent á að eftir þátttöku þeirra sé óskað.
Hér verður stiklað á stóru úr samantekt málstofustjóra, en á þinginu voru starfandi fjórar málstofur á fyrri degi þingsins:
Auður H. Ingólfsdóttir málstofustjóri málstofu um „Sjálfbæra þróun í hnattbæru samhengi“ nefndi m.a. að Gunnar Pálsson sendiherra hafi orðað það svo þegar að spurt var úr sal hvort að svigrúm væri fyrir sjálfbæra þróun að það væri bara spurning um annað hvort „sjálfbæra þróun“ eða „óbær afturhvörf“, það væri sannleikurinn sem að horfast yrði í augu við. Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri Landverndar hafi bent á að reynslan kenni okkur svo ekki verði um villst að „betra sé heilt en gróið“ þ.e. þó að oft sé hægt að bæta upp eyðileggingu vegna nýtingar eftir á, sé bæði hagkvæmara og auðveldara að forðast hana en að ætla að hreinsa til eftir á. Valgarður Stefánsson framkvæmdastjóri alþjóða jarðhitasambandsins minntist m.a. á að „orkukræfi okkar (þ.e. þörf fyri orku) aukist miklu hraðar en efnahagsuppsveiflan, sem gæfi til kynna að við værum hreint ekki að standa okkur vel í orkusparnaði, sérstaklega ekki þegar kemur til vals okkar á farartækjum. Vistfræðilegar samgöngur standa ekki vel að vígi og ástandið í heiminum gefur ekki neina ástæðu til bjartsýni.Guðrún Pétursdóttir var málstofustjóri málstofu um „Náttúru og umhverfi, vá og viðbrögð“. Nefndi hún í samantekt sinni m.a. niðurstöður úr erindi Steingríms Jónssonar haffræðings HA á kólnun hafsins norðan með landinu og þær geigvænlegu afleiðingar sem þær munu hafa í för með sér ef þróunin heldur áfram sem horfir en niðurstöður alþjóðlegra mælinga, sem Ísland tekur að einhverju leiti þátt í benda til 0,7% kólnunar hitastigs hafsins fyrir norðan landið. Athuga skal að viðvarandi 0,7% kólnun þýðir í raun 20 gráða kólnun lofthita. Sú staðreynd að Ísland hafi ekki möguleika á að stunda stöðugar rannsóknir á eins veigamiklu máli og „mælingum á breytingum á hitastigi sjávar við Ísland“ og sé háð samkveppnisstyrkjum, Evrópustyrkjum og velvild yfirvalda á hinum ýmsu kjörtímabilum til að geta sinnt þessum rannsóknum nái ekki nokkurri átt og brýnt sé að fá viðunandi og stöðugar fjárveitingum til að sinna þessum rannsóknum.
Glærur af þinginu er hægt að nálgast á vef Umhverfisráðuneytisins.
Líflegar og rafmagnaðar pallborðsuræður voru haldnar í þinglok og greinilegt að umhverfsimál eru hitamál á pólistískum vettvangi jafnt sem meðal þjóðarinnar og svo virðist sem „umhverfi“ hafi misjafna þýðingu fyrir fólk eftir því hvar það stendur pólitískt. Sorglegt var að fylgjast með hve fræðimennirnir og starfsmenn hinna ýmsu stofnana og ráðuneytisins sem ber ábyrgð á umhverfismálum í landinu eru bundin að því er virðist þagnarheiti gagnvart einstaka málefnum til að halda trúnaði við ríkjandi stefnu stjórnvalda. Ef fagfólkið má ekki tala um annað en tölulegar vísbendingar og standa að mælingum, hver á þá að standa að stefnumörkuninni sjálfri, stjórnmálamenn einir? Þetta er dilemma sem erfitt er að stíga upp úr ef fagleg vinnubrögð skulu viðhöfð en mér finnst samt ástæða til að nefna að það sé áberandi sorglegt að fólk sem oft á tíðum fer í langskólanám til að sinna umhverfismálum af ástríðu fyrir málefninu, endi með að vera hlutlausir leppar einstakra stjórnmálaafla og jafnvel framkvæmdaaðilar spellvirkja á náttúrunni þegar upp er staðið.
Frjáls félagasamtök, íbúar landsins og samtök atvinnulífsins verða að koma í ríkari mæli að stefnumörkun þannig að við endum með plagg sem ber vott um samkomulag um átak í umhverfsimálum en ber ekki svip þess að Umhverfsiráðuneytið sé skúffuráðuneyti Iðnaðarráðuneytisins.
Grasagudda skorar á alla landsmenn að blanda sér í umræðurnar og lýsa skoðun sinni á fyrirliggjandi stefnu um sjálfbæra þróun. Skriflegar yfirlýsingar, athugasemdir, bréf og fyrirspurnum skal beint til Umhverfisráðuneytisins sem hefur lofað að taka tillit til athugasemda þjóðarinnar áður en endanleg útfærsla um stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun til ársins 2020 liggur fyrir sem endanleg áætlun. Hægt er sækja skjalið „Velferð til framtíðar, Megináherslur 2006-2009. DRÖG“ skoða það vel, gagnrýna og senda inn breytingartillögur til Umhverfisráðuneytisins til 15. janúar 2006.
Myndin er af pallborðsumræðunum þann 19.06.2004. Frá vinstri Eyrún Magnúsdóttir dagskrárgerðarmaður og stjórnandi pallborðsumræðanna, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður, Ellý Katrín Guðmundsdóttir Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árni Finnsson form. Náttúruverndarsamtaka Íslands, Pétur Reimarsson Samtökum atvinnulífsins.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir
Landvernd fjallar einnig um þingið á heimsíðu sinni landvernd.is
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisþing 2005 - Stefnumörkun um sjálfbæra þróun“, Náttúran.is: 24. október 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/stefnumorkun_sjalftroun/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 4. maí 2007