Fjölmenningarsamfélagið Ísland spratt fram á örfáum árum. Nú er að verða breyting þar á þar sem farandverkamenn og heilu fjölskyldur innfllytjenda flþja nú land svo hundruðum og þúsundum skiptir. Sumir vegna þess að þeim hefur þegar verið sagt upp störfum og aðrir vegna þess að þeir sjá sér og sínum ekki lengur hag í því að vera hér áfram. Fyrir þá sem unnið hafa hörðum höndum og sent reglulega peningana úr landi til fjarstaddra fjölskyldumeðlima er staðan gerbreytt og forsendur brotnar fyrir dvölinni. Launin hafa rýrnað það mikið auk þess sem gjaldeyri er vart að fá.

Uppgangstímanum er lokið, tíma sem ekki allir upplifðu sem slíkan en okkur öllum var talið trú um að væri hreint stórkostlegur. Fjölmiðlar bjuggu til þá ímynd að við værum forrík og frábær. Útrásin átti að sýna heiminum í eitt skipti fyrir öll að við værum engin smá-þjóð heldur best í heimi. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn tóku þátt í darraðadansinum og partýunum sem fylgdu af mikilli áfergju. Allt tal um varúð og forsjálni var afskrifað sem úrtölur og leiðindi.

Útrásin mistókst eins og við höfum rækilega frétt af og fundið fyrir. Snúum útrásinni í innrás, innrás inn í Ísland og virkjum sköpunarkraftinn og hugmyndaflugið og byggjum upp nýtt Ísland í sátt við náttúruna með forsjálni og í anda sjálfbærrar þróunar sem þýðir að ekki sé vaðið hugsunarlaust í virkjanaframkvæmdir fyrir stóriðju heldur hlúð að fjölbreyttara atvinnulífi. Óspillt náttúra er okkar dýrasta djásn og okkur ber skylda til að standa um hana vörð fyrir komandi kynslóðir og nóg er til að góðum hugmyndum til að skapa sjálfbæra framtíð.

Það eina sem vantar nú er að stjórnvöld, hvernig sem þau nú verða samsett á næstunni, hreinlega dæli peningum í nýjar æðar, nýja græna sjóði, og geri íslenska nýsköpun í sátt við náttúruna að sterku stoðinni í þjóðfélaginu. Hingað til hefur ekki verið settur peningur í nýsköpun á Íslandi, ekki sem neinu nemur. Nú nema ef um virkjanir og stóriðju hefur verið að ræða. En álverðið lækkar og lækkar, ál er ekki svarið og í því felst ekkert öryggi fyrir þjóðina.

Viðvörunarljósin blikka, stöldrum við og gerumst skynsöm!

Birt:
18. október 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þjóð í leit að framtíð“, Náttúran.is: 18. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/18/ao-stokka-upp-nytt/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. október 2010

Skilaboð: