Liljur vallarins í Bíó Paradís
Liljur vallarins fjallar um stórar spurningar - um Guð, tilgang lífsins og hvernig menn eiga að haga lífi sínu. Þessar spurningar eru settar fram í raunverulegu umhverfi í fámennri sveit, þar sem sköpunarverkið blómstrar - menn, dýr og náttúra.
Myndin er tekin í Kjósinni, sem er 200 manna sveitasamfélag í skjóli við Esjuna. Sr Gunnar Kristjánsson kemur þangað með róttækar hugmyndir frá Evrópu um frið og náttúruvernd. Í hans huga eru þær nátengdar kenningum Jesú frá Nasaret og boðskap Biblíunnar. Í sókninni eru ekki allir á einu máli um það.
Er hægt að planta áhuga á náttúruvernd eða sá fræjum friðar úr prédikunarstólnum, þegar kirkjusókn er ekki meiri en raun ber vitni? Getur presturinn hjálpað sóknarbörnunum að verða betri manneskjur? Eflir trúin virðingu manna fyrir sköpunarverkinu og góðu mannlegu samfélagi? Er náttúran heilög eins og lífið? Þessum spurnignum er ekki öllum létt að svara, en þær eru þess virði að gefa þeim gaum.
Séra Gunnar berst fyrir málstað mannúðar, friðar og náttúruverndar með þeirri dyggð sem honum finnst duga best, hófsemdinni.
Persónur í myndinni eru bændur, Guðbrandur og Annabella í Hækingsdal, Snorri í Sogni, Hreiðar og Ásta á Grímstöðum, Kristján og Dóra á Neðra Hálsi, Bjarni á Þorláksstöðum, Guðný í Flekkudal, og presturinn, séra Gunnar Kristjánsson. Einnig koma við sögu Árni Bergmann rithöfundur og félagar Gunnars í leshring Sr. Kristinn Friðfinnsson, Sr. Gunnþór Ingason, Pétur Gunnarsson rithöfundur, Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður og Ögmundur Jónasson alþingismaður.
Bændurnir taka þátt í samræðunni og gefa vísbendingar með verkum sínum og lífsformi.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Jónsson „Liljur vallarins í Bíó Paradís“, Náttúran.is: 17. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/17/liljur-vallarins-i-bio-paradis/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.