Verða 500 þúsund tré á Hólmsheiði nýbyggð að bráð?
Í umsögn Skógræktarfélags Reykjavíkur kemur m.a. fram að margt mæli gegn þessum framkvæmdum en eðli málsins samkvæmt byggir stjórn Skógræktarfélagsins afstöðu sína einkum á þeirri miklu skóggræðslu sem fram hefur farið á Austurheiðunum frá miðjum níunda áratugnum, en hún hefur verið unnin í nánu samstarfi Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélagsins. Það svæði sem nú er til meðferðar eru 170 hektarar að flatarmáli og er svæðið fullgróðursett trjám. „Á þessu svæði hefur ræktun tekist framar björtustu vonum og er uppvaxandi skógur þar afar fallegur og í örum vexti. Ísland er eitt skógfátækasta land í heimi, en skógar landsins gegna engu að síður mikilvægu hlutverk fyrir almenning, því skóglendi er meðal vinsælustu útivistarsvæða. Því er enn meiri skaði en ella af því að fórna því takmarkaða skóglendi sem er að finna innan Reykjavíkur undir iðnaðar- og athafnasvæði. Skógurinn er ennfremur hluti af fallegri umgjörð um borgina.“
Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti í lok ágústmánuðar, að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi athafnasvæðis á Hólmsheiði. Svæðið er staðsett norðan Suðurlandsvegar á milli Hafravatnsvegar og hesthúsasvæðisins í Almannadal og er heildarstærð þessa nýja athafnasvæðis um 170 hektarar.
Í tilkynningunni frá skipulagsstjóra Reykjavíkur sem birt var í ágústmánuði var sagt að 100 hektarar af svæðinu færu undir lóðir sem yrðu af ýmsum stærðum, eða allt frá 0,1 hektara upp í 10 hektara. Flestar yrðu lóðirnar 0,1-0,5 hektarar að stærð. Húshæðir yrðu frá einni hæð og upp í sex hæðir. „Ef heimildir til uppbyggingar eru nýttar að fullu er áætlað að á svæðinu geti rúmast byggingar sem verða samtals allt að 700.000 m2 að flatarmáli. Með þessu nýja svæði er tryggt stóraukið framboð fyrirtækjalóða og mun meira en í boði hefur verið mörg undanfarin ár.“
Ennfremur kemur fram í umsögninni að ræktun skógarins á Hólmsheiði hafi að stærstum hluta verið unninn af ungmennum hjá Vinnuskóla Reykjavíkur, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og grunnskólabörnum í Reykjavík. Unga fólkinu hafi á sínum tíma verið talið trú um, að þarna myndi með tímanum vaxa upp skógur til skjóls og prþði sem þau og afkomendur þeirra gætu síðar notið. „Menn skyldu því fara varlega í að eyðileggja þann ávinning til þess eins að rýma fyrir iðnaðarstarfsemi“.
Frétt af vef Skógræktar rikisins.
Efri myndin er af snævi þöktu greni. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. Neðri myndin er skipulagsyfirlit af svæðinu, mynd af skogur.is.
Birt:
Tilvitnun:
Skógræktarfélag Íslands „Verða 500 þúsund tré á Hólmsheiði nýbyggð að bráð?“, Náttúran.is: 28. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/28/500-sund-tr-hlmsheii-nbygg-br/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.